Bikarmót IFBB dagur 1 - Strákar

17 November 2012 Konráð Valur Gíslason

Jæja þá er frábæru kvöldi í Háskólabíó að ljúka. Að þessu sinni var bikarmóti IFBB skipt niður á tvo daga, strákarnir á þeim fyrri, stelpurnar seinni.Það gætti smá óánægju á meðal keppenda með þessa skiptingu en ég held að eftir þetta kvöld þá hafi flestir verið sáttir við ákvörðun forsvarsmanna IFBB á Íslandi, þá Einar Guðmann og Sigurð Gestsson.

Kvöldið gekk hratt fyrir sig og endaði nokkrum mínútum fyrir áætlaðann tíma. Keppendur voru margir hverjir mjög góðir og er ljóst að framtíðin í fitness og vaxtarrækt karla er björt.

Í unglingafitness vann Mímir Nordquist gull eftir harða baráttu við Ólaf Thor (Vonin) og Svein Má og grunar mig að litlu hafi munað á milli þeirra.

Gauti Már vann fitness flokkinn nokkuð örugglega, að mér fannst, en það var slagur um næstu þrjú sæti þar á eftir. Kristinn Guðmundsson náði öðru sæti á sínu allra fyrsta móti, Hlynur Guðlaugsson tók þriðja sæti og Gunnar Ársæll (Flugdrekinn) endaði í því fjórða.

Svavar Ingvarsson vann vaxtarrækt unglinga og er ljóst að þar fer mikið efni á ferð, Guðmundur Halldór tók annað sætið í sínu besta formi hingað til og Árni Valdór endaði í því þriðja.

Júlíus Þór vann Sigurkarl í -80kg flokki í vaxtarrækt, báðir voru þeir mjög góðir. 

Gísli Örn (lögfræðingurinn) vann -90kg flokkinn. Baldur Borgþórsson kom í þennan flokk sem svoldið óskrifað blað, vitað var að hann ætti í axlarmeiðslum og ætti erfitt með pósur en hann stóð sig mjög vel og tók annað sætið. Bestu tilþrifin í -90kg flokknum átti Skúli Steinn með óvæntu splitti í miðri rútínunni sinni við mikinn fögnuð áhorfenda.

Valgeir Gauti var einn í -100kg flokknum og leit vel út, ekki alveg eins skorinn og við höfum átt að venjast en mjög þykkur og greinilegar bætingar þarna á ferð.

Í +100kg flokknum vann Magnús Bess (M. Bess) í sínu besta formi í áraraðir og var hrein unun fyrir þá sem hafa gaman af vaxtarrækt að sjá meistarann í svona góðu formi. Maggi Bess hefur nú gefið það út að hann muni taka sér 1 ár í frí frá keppni til að hvíla skrokkinn og sinna fjölskyldunni en á næsta ári er Norðurlandamót IFBB á Íslandi og þykist ég vita að það muni verða erfitt fyrir Magga að sleppa því. Björn Sveinbjörnsson tók annað sætið og skilaði sínu vel. Guðmundur Stefán (Handleggurinn) tók svo þriðja sætið. Í overall flokknum sigraði svo Magnús Bess.

Mér fannst kvöldið heppnast mjög vel og er ég sammála flestum úrslitum. Á morgunn eru það svo stelpurnar og ég hvet fólk til að mæta tímanlega, því að það verður PAKKAÐ!