Keppendafundur fyrir Bikarmót IFBB 2012

16 November 2012 Konráð Valur Gíslason

Þá er keppandafundi fyrir Bikarmót IFBB lokið og ljóst orðið  að það hafa orðið nokkur forföll hjá keppendum. Fyrirfram var búist við um 150 keppendum en það er nokkuð víst að talan verður líklega nær 130.

Eins og síðustu ár þá er módelfitness flokkurinn stærstur og þónokkur nýliðun sem á sér stað þar. Stór nöfn eins og Aðalheiður Ýr, Unnur Kristín, Margrét Edda Gnarr, Jara Sól og Karen Lind verða allar með ásamt Sylviu Narvaez sem er að keppa í fyrsta sinn fyrir IFBB á Íslandi. Sylvía vann einmitt NPC mót í USA fyrir nokkrum vikum og má búast við að hún muni láta að sér kveða á laugardaginn. Í unglingaflokknum í módelfitness keppa Magnea Gunnarsdóttir og Kristín Guðlaugsdóttir en þær kepptu báðar á Arnold classic amatuer europe fyrir nokkrum vikum og stóðu sig mjög vel. Í fitness flokki -163cm keppir meðal annars Jóhanna Hildur sem beið í lægri hlut fyrir Jónu Lovísu á Íslandsmótinu í vor og grunar mig að hún muni sækja fast að titlinum í fjarveru Jónu Lovísar. Í +163cm flokknum keppir Íslandsmeistarinn Alexandra Sif og Hugrún Árnadóttir ásamt nokkrum mjög efnilegum nýliðum sem vert er að fylgjast með. Í unglingafitness flokki kvenna keppir Una Margrét sem var einmitt Íslandsmeistari 2011, ásamt Dagný Pálsdóttur og fleirum góðum. Í öldungaflokknum, +35ára fitness flokki kvenna, ber að nefna Lindu Jónsdóttur og Rósu Björg sem báðar eru að snúa aftur frá WBFF sambandinu eftir árs bann og svo Hólmfríði Guðbjörnsdóttur sem lenti í öðru sæti á móti Kristínu Kristjánsdóttur í vor. Í fitness flokki karla ber fyrst að nefna Gauta Má en hann er margfaldur Íslandsmeistari í fitness og vaxtarrækt, einnig ber að fylgjast með Gunnari Ársælssyni og Hlyn Guðlaugssyni ásamt fleirum. Unglingafitness flokkur karla geymir marga góða keppendur og ber þar helst að nefna Mímir Nordquist fyrrum Íslandsmeistara. Helstu fréttirnar úr vaxtarræktinni eru þær að Magnús Bess fer í +100kg flokk og Björn Sveinbjörnsson, sem ætlaði sér í fitness flokk, var langt frá sinni þyngd og endar því í vaxtarrækt +100kg flokki ásamt Magga Bess og Guðmundi Stefán (Gummi Handleggur) sem er að koma aftur eftir margra ára frí. Valgeir Gauti fer í -100kg flokk og mætir þónokkuð breiðari en á síðasta móti en það verður spurning hvort hann nær að skila eins góðum skurð og síðast þegar hann keppti hér heima. Baldur Borgþórsson er að keppa í fyrsta sinn í vaxtarrækt og það í -90kg flokki, margir kannast kannski við Baldur úr ólympískum lyftingum en hann er með betri lyfturum sem við höfum átt. Í -80kg flokki etja svo kappi félagarnir Júlíus Þór og Sigurkarl Aðalsteinsson. Unglinga flokkurinn í vaxtarræktinni er þunnskipaður í ár og ber helst að nefna Svavar Ingvarsson og Árna Valdór. Hér er aðeins verið að stikla á stóru og alveg ljóst að það verður mikið af góðum keppendum sem munu stíga á svið í Háskólabíó 16-17nóvember og vil ég hvetja alla til að mæta.