Bikarmót IFBB dagur 2 - Stelpur

18 November 2012 Konráð Valur Gíslason

Þá er síðari degi bikarmóts IFBB lokið. Mótið fór vel fram, stóðst allar tímaáætlanir, hlé voru stutt og lítil bið eftir keppendum. Una Margrét Heimisdóttir vann unglingafitness flokkinn og getur hún því bætt bikarmeistaratitlinum við Íslandsmeistartitilinn 2011.

Una Margrét keppir næst á heimsmeistaramóti unglinga sem fram fer í Budapest um miðjan desember mánuð. Andrea Rán tók annað sætið. Andrea var að koma aftur yfir til IFBB eftir að hafa keppt hjá Wbff og tekið út 1 árs bann. Rebekka Ósk tók þriðja sætið á sínu fyrsta móti. Jóhanna Hildur tók fyrsta sætið í - 163 cm og höfðu reyndar margir spáð því fyrirfram.

Jóhanna stefnir á að keppa erlendis á næsta ári. Ingibjörg Jónasdóttir tók annað sætið á sínu fyrsta móti hjá IFBB, Ingibjörg keppti í júní hjá Wbff. Þarna gæti verið mikið efni á ferð, þarf að ná dýpri skurð og þá gæti hún gert mjög góða hluti í framtíðinni. Í þriðja sæti var svo Erla María Davíðsdóttir sem var að keppa á sínu öðru móti, lenti í öðru sæti á bikarmótinu í fyrra.

Kristín Sveiney vann + 163 cm flokkinn á sínu fyrsta móti. Það er nokkuð ljóst að þessi stelpa mun gera stóra hluti í framtíðinni. Hugrún Árnadóttir tók annað sætið og Edda María Birgisdóttir tók svo þriðja sætið á sínu fyrsta móti. Edda spilar með Stjörnunni í efstu deild í knattspyrnu og lék með þeim í allt sumar og keppti í evrópudeildinni.

Rósa Björg vann + 35 ára flokkinn í fitness, Rósa var að keppa aftur hjá IFBB eftir árs bann. Keppti síðast hjá Wbff. Linda Jónsdóttir tók annað sætið. Linda var líkt og Rósa, að koma aftur til IFBB eftir stutta dvöl hjá Wbff og ég veit til þess að Linda er að hugsa um að keppa á Heimsmeistaramóti öldunga +45 ára flokki sem er haldið í Budapest um miðjan desember. Hólmfríður Guðbjörnsdóttir tók svo þriðja sætið á sínu öðru móti, lenti í 2 sæti á Íslandsmótinu 2012 á móti Kristínu Kristjánsdóttur. Menn voru aðeins að deila í salnum um þessi úrslit, mörgum fannst Rósa vera orðin of stór og með of djúpan skurð en +35 ára flokkurinn hefur alltaf fengið að vera svoldið vöðvameiri og skornari en hinir fitness flokkarnir og verðum við að treysta á að dómararnir viti sínu viti í þessum málum.

Magnea Gunnarsdóttir vann langþráðann sigur í unglingamódelfitness flokknum. Magnea hafði aldrei unnið sinn flokk hér heima en gengið mjög vel erlendis. Kristín Guðlaugsdóttir tók annað sætið á sínu öðru móti hér heima. Kristín keppti einmitt ásamt Magneu á Arnold classic europe fyrir nokkrum vikum síðan og stóðu þær báðar sig mjög vel. 

Jara Sól vann   - 163 cm flokkinn í módelfitness og er þetta hennar annar titill á einu ári. Sandra María tók annað sætið en hún lenti einmitt í þriðja sæti á Íslandsmótinu í april. Steinunn Helga tók svo þriðja sætið á sínu fyrsta móti.

Margrét Edda Gnarr vann langþráðan sigur í - 168 cm flokknum. Margrét Edda er búin að keppa ansi oft bæði hér heima og erlendis og er þetta hennar fyrsti sigur. Eva Lind tók annað sætið en hún var einmitt að koma aftur yfir í IFBB eftir að hafa keppt hjá Wbff og tekið út 1 árs bann. Þetta er besti árangur Evu Lindar til þessa. María Kristín tók svo þriðja sætið á sínu fyrsta móti.

Karen Lind vann  - 171 cm flokkinn og er hún því bæði Íslands- og bikarmeistari í - 171 cm flokki 2012. Sylvia Narvaez, sem vann NPC Titans í USA fyrir nokkrum vikum, tók annað sætið og Unnur Kristín það þriðja.

Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir vann + 171 cm flokkinn, Auður Jóna tók annað sætið á sínu fyrsta móti og Vilborg Sigurþórsdóttir fékk það þriðja. Aðalheiður Ýr varð svo heildarsigurvegar í módelfitness og kórónaði þar með frábært keppnisár hjá sér.

Kristín Sveiney varð heildarsigurvegari í fitness flokki. Mér fannst mikil nýliðun einkenna þetta mót, fullt af flottum stelpum að keppa sem eiga vafalaust eftir að standa sig vel í framtíðinni.