J - Dag í Danmörku

11 November 2012 Lína Langsokkur

Nú er hinu árlega haustfrí Dana nýlokið og Lína fékk að taka þátt í því. Öll skólabörnin, þar á meðal fröken Langsokkur fengu vikufrí í skólanum og mamma og pabbi tóku sér mörg hver frí líka, þetta er nefninlega fjölskyldustund.

Danirnir eru nefninlega með sterka fríhefð sjáiði til, þeir vinna ekki bara styttri vinnuviku en Íslendingarnir heldur halda þeir mjög fast í fríin sín. Ef frídagur lendir á helgi, þá fá þeir fríið oft borgað með fríi annan daginn við helgina. Hér þykir hálfóeðlilegt þegar fólk tekur sér ekki frí, „ha? Fórstu ekki í vetrarfrí/haustfí/vorfí“?.

Lína hefur sko tekið eftir því að Danirnir kunna því óskaplega vel að „slappa af“, eitthvað sem Íslendingar gætu hugsanlega gert meira af. Hér í Danaveldi eru, þrátt fyrir tíðnefndan sykurskatt, heill hellingur af nammibörum „valg selv slik“ og allar þessar verslanir halda sér uppi. Hér eru 100 gr yfirleitt á um 7-9 danskar krónur sem jafngilda um það bil 150-200 íslensku. Það sem Lína tekur þó sérlega eftir, er að þessar verlsanir hafa sama verð út vikuna, gera ekki upp milli dagana því einhverstaðar þarna í lok vikunnar er jú alþjóðlegur nammidagur og þá á fólk sko að geta leyft a.m.k helmingi meira nammi en buddan vanalega leyfir. Nei, reglusemin situr fast hjá verslunareigendunum og kúnnanum með. Danirnir eru gjarnari á að fá sér nammi til að hafa það notalegt eða þegar þá „langar í“ frekar en vegna þess að „nú skal nammi étið því það er á spottprís, bara í dag, þangað til eftir viku!“.

Annarsvegar eru “baunar“ nú löngum þekktir fyrir að sötra sitt öl og héldu þeir sína stóru J-dags-hátíð í byrjun nóvember. Þegar möguleiki var loks á að versla sér hinn víðfræga Jólabjór úti í næstu Nettó og menn settu upp rauðar húfur sem þóttu hátíðinni sæmandi og drukku sig metta og nutu þess. Bjórinn er nefninlega ögn „billigari“ hérna en á klakanum og geta hinir sparsömu hjólreiðamenn leyft sér að sötra við og við án þess að hafa miklar áhyggjur af buddunni. Stemningin er oft sú að hafa það huggulegt, slappa af og sötra eins og einn kaldan á góðu kvöldi með góðu fólki. Það er jú oft meiningin en eins og Lína hefur tekið eftir vil það yfirleitt gerast að „hygge“ stundin verður of löng og of mikið hyggað í sætindunum og þvoglumælskusafanum. Þá vakna menn gjarnan með indælt samviskubit á mánudagsmorgni og ætla sko að taka sig á! Hér finnur Lína nefninlega fyrir sömu hjarðarhegðun og margar ræktarrottur finna á landinu ísa, mánudagur: stöppuð rækt, þriðjudagur: þétt rækt, Miðvikudagur: vel nýtt rækt, Fimmtudagur: nokkrir í rækt, föstudagur: gráir kettir í rækt. Á laugardögum er hópur kátra kvenna í hóptímum gríðarstór og á sunnudögum má strax sjá glitta í samviskubit á trýni nokkra þeirra sem mæta, gráu kettirnir láta sig aldrei vanta.