Það sem að baki liggur

21 September 2012 Jónas Hallgrímsson

Haustið 2008 fékk ég þá flugu í höfuðið að mynda íslenska fitnesskeppendur. Hugmyndin kviknaði þegar við hjónin fórum út að borða eitt kvöldið.

Ég tók strax eftir því að konan sem þjónaði okkur til borðs var mjög stælt, trúlega í kraftlyftingum. Mér datt í hug að gaman væri að mynda hana, en gugnaði á að bera upp erindið. Á leiðinnni út af staðnum var ég enn að hugsa þetta og datt þá í hug að gaman væri að gera seríu með myndum af fitnesskeppendum. Það var því þjónustustúlkan sem gaf mér hugmyndina að því að mynda íslenska fitnesskeppendur.  Því miður veit ég ekki hver konan er. Mér hefur nokkrum sinnum dottið í hug að fara aftur á staðinn, reyna að komast að því hver hún er og þakka fyrir, en efast stórlega um að eigendinn muni svo langt aftur í tímann.

Ég hef nú myndað fitnesskeppendur í fjögur ár. Það sem í upphafi átti að vera lítil myndasería hefur vaxið og orðið að ansi stóru verkefni þar sem markmiðið er að mynda allla helstu (og reyndar helst alla) sem keppa í fitness hér á klakanum. Vandamálið við það er að keppendum hefur fjölgað gríðarlega frá 2008 og það er bara því miður mjög erfitt og næstum ómögulegt að mynda alla. Ég reyni samt að mynda eins marga eins og ég mögulega get. Það er ekki óalgengt að ég myndi hátt í 40 myndatökur yfir eina mótshelgi.

Aðalheiður Ýr

Ég velti stundum fyrir mér hvort hugmyndin að baki fitness myndunum eigi sér ekki aðeins dýpri rætur en að sjá þjónustustúlkuna á veitingahúsinu. Þegar ég hugsa til baka þá man ég að ég skoðaði blöð eins og Muscle & Fitness og Flex hér á árum áður.  Við erum að tala um árin 1992 -1996.

Árið 1996 bauð Hannes Sigurðsson, listfræðingur, bandaríska ljósmyndarnum Bill Dobbins hingað til lands.  Bill Dobbins var þá aðal vaxtaræktar ljósmyndarinn í Bandaríkjunum. Hann var með sýningu á Kaffi Mokka á Skólavörðustíg og tók einnig þátt í málþingi sem haldið var í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi. Það merkilegasta við málþingið var að hann hafði með sér tvær vaxtaræktarkonur frá Bandaríkjunum, sem röltu um á bíkini og hnykkluðu vöðvana. Þetta voru þær Ericca Kern og Melinda Cotes.  Þetta var í fyrsta sinn sem að ég sá vaxtarræktarkonur í nálægð og ég man að Ericca hafði á orði að henni fannst fólkið feimið við að tala við þær, enda vanar æstum aðdáendum í Ameríkunni. Hafið í huga að á þessum tíma voru ekki fitnessflokkar, bara vaxtarækt. Í minningunni voru þessar dömur hrikalegar, en þetta var í kringum árið 1996.

Dobbins endaði ferðina á því að mynda vaxtaræktarkonurnar tvær upp á jökli. Þær myndir birtust síðar í Flex (frekar en Muscle and  Fitness) og voru hreint út sagt hörmulegar. Kom þá berlega í ljós að hann var vanur því að hafa góðan slatta af aðstoðarmönnum við myndatökurnar í Ameríkunni sem stilla öllu upp fyrir hann. Það hafði hann hinsvegar ekki hér og var árangurinn eftir því. Það er samt enginn spurning í mínum huga að Bill Dobbins hefur lengi verið og er enn einn af stærstu nöfnunum í þessum bransa í Bandaríkjunum.

Ljósmyndarinn Robert Mapplethorpe á samt heiðurinn af því að vera frumkvöðull í bransanum. Hann ljósmyndaði Lisu Lyon, fyrsta heimsmeistarann í vaxtarækt kvenna (1979). Útkoman var bókin Lady: Lisa Lyon, sem út kom árið 1983. Bókin er tímamótaverk, hún sýnir Lisu Lyon bæði sem “lady” og eins vöðvastælta vaxtaræktarkonu. Hún gat í rauninni verið bæði. Ég sá bókina fyrst árið 1995 og hef séð hana nokkrum sinnum síðan. Hún er löngu uppseld og illfáanleg, en í fyrra mátti sjá nokkrar myndir úr bókinni á yfirlitssýningu á verkum Mapplethorpe sem haldin var í Gallerí i8 við Tryggvagötu. Það var mikill fengur að sjá enda eru ljósmyndir Roberts Mapplethorpe einstakar.

Júlíus Þór

Af þessu tali mínu um sportið má sjá að fitnesspælingin er ekki ný hjá mér, þó svo að ég hafi sjálfur ekki byrjað að mynda fitnesskeppendur fyrr en 2008. Ég man t.d. eftir að hafa séð Hrafnhildi Valbjörnsdóttur og Möggu Massa í íþróttaþáttum í sjónvarpinu og dáðst að því hvað þær væru flottar á meðan margir hristu hausinn.  

Það sem ég er að gera, að “documenta” íslenska fitnesskeppendur er eitthvað sem að ég held að hafi aldrei verið gert áður með jafn viðamiklum hætti. Vissulega hafa keppendur verið ljósmyndaðir áður. Jóhann A. Kristjánsson ljósmyndaði hverja einustu vaxtarræktar- og fitnesskepnni frá 1983 til 2006. Það er mikil heimild um horfna tíma og á hann hrós skilið fyrir þá vinnu. Bjarni Jónsson, ljósmyndari á Ljósmyndastofunni Mynd í Hafnarfirði, myndaði nokkra karlkyns vaxtarræktarkeppendur árið 2000 og hélt sýningu á ljósmyndunum í Gallerí Sævars Karls í Bankastræti. Ég veit ekki til að aðrir hafi myndað íslenskt fitnessfólk með skipulögðum hætti.

Ég sé myndirnar mínar sem myndir af fólki eins og það er, stælt og skorið. Ég reyni að sýna vöðvana og skurðinn en einnig persónuna sem mynduð er. Jafnframt vil ég hafa myndirnar frekar listrænar en yfirborsðlegar, því í mínum huga eldast jarðbundu myndirnar betur. Ég geri mér samt vel grein fyrir að mitt sjónarhorn er oft ekki það sama og perónunnar sem mynduð er. Því er iðulega farinn millivegurinn í myndatökunum, nokkrar myndir fyrir mig og svo myndað fyrir viðkomandi.

Nýlega fékk ég verkefnastyrk frá Myndstef (Myndhöfundarsjóður Íslands) til þess að hefja undirbúning að því að koma verkefninu frá mér á viðeigandi hátt. Mér finnst það mikill heiður að hafa verið úthlutað þessum styrk og í raun viðurkenning á því sem ég hef verið að gera síðastliðinn fjögur ár.

Jónas Hallgrímsson
www.jonashallgrimsson.com