Galdramáttur sink og tribulus?

25 September 2012 Ragga Magg

Með tilkomu internetsins opnuðust nýjar dyr að endalausu upplýsingaflæði og er Google án efa meðal vinsælli leiða til að afla sér upplýsinga ef menn þyrstir í nýjan fróðleik, eða hvað?

Spurningin er hins vegar sú; getur þú treyst þeim upplýsingum sem þú finnur á internetinu? Hvaðan koma þessar upplýsingar? Ekki trúa öllu sem þú lester gott að hafa í huga þegar vafrað er um internetheimana í leit að upplýsingum, fróðleiksmolum og þekkingu. Í gegnum tíðina hef ég rekist á og lesið fjöldan allan af heilsutengdum greinum eftir svokallaða "fitness gúrúa" þar sem þeir koma á framfæri ýmsum staðhæfingum er varða heilsu og þjálfun, sem því miður geta margar hverjar verið varhugaverðar. (Svo ekki sé minnst á allar staðhæfingarnar sem fæðubótaefnaframleiðendurnir auglýsa út um allar trissur).

Sem dæmi langar mig að nefna eina fremur vinsæla staðhæfingu sem margir fitness gúrúarnir hafa skrifað um, sem því miður á ekki við mikil rök að styðjast. En það er sú fullyrðing að snefilefnið zinc/sink eða ZMA fæðubótarefnið (blanda af sinki, magnesíum og B6 vítamíni) búi yfir
þeim töframætti að geta bústað upp náttúrulega testósterón framleiðslu. Því miður hef ég enn ekki rekist á vísindalegar rannsóknir sem styðja þessa fullyrðingu, og trúið mér, ég hef eytt heilu dögunum í að leita.

Hins vegar hafa rannsóknir á sambandi milli frumu-zinc samsöfnunar og testósterón magns í blóðvatni í karlmönnum leitt í ljós að eldri menn sem þjást af vægum sink skorti geta notið góðs af því að taka sink, þar sem testósterón magnið í blóðvatni þeirra jókst og komst aftur í eðlilegt horf (en þeir höfðu s.s. mælst undir viðmiðunarmörkum í eðlilegu testósterón magni). Því miður hefur enn ekki verið sýnt framá að sink hafi þau áhrif að testósterón magn aukist í blóðvatni umfram 100% testósterón gildi hjá heilbrigðum ungum karlmönnum með eðlileg testósterón gildi. Þó er það allt annað mál að sink er afar mikilvægt snefilefni sem líkaminn þarfnast til að viðhalda eðlilegri framleiðslu á testósteróni, en samkvæmt niðurstöðum rannsókna getur sink skortur valdið því að testósterón magn í blóðvatni minnki.

Þannig að fyrir alla muni takið inn ráðlagðan dagsskamt af sinki, ekki aðeins til að viðhalda eðlilegum testósterón gildum heldur einnig heilsunnar vegna því sink er lífsnauðsynlegt fyrir fjölmörg efnaskiptaferli sem öll eiga sinn þátt í að viðhalda eðlilegri líkamsstarfsemi.

En sé markmiðið að auka testósterónmagnið náttúrulega þá mun sink því miður EKKI gera nokkurn skapaðan hlut fyrir ykkur, ef marka má núverandi stig vísindalegrar þekkingar.

Önnur tiltölulega útbreidd fullyrðing er sú að fæðubótarefnið Tribulus Terrestris geti bústað testósterónmagnið upp náttúrulega sem og aukið styrk og vöðvavöxt umtalsvert. En því miður hef ég enn ekki séð neinar vísindalegar rannsóknir sem sýna framá að Tribulus geri nokkuð gagn í að efla styrk, auka vöðvamassa né hafi nokkur áhrif á testósterón/epitestósterón hlutföllin (T/E ratio) í þvagi, hvorki eftir langtíma né skammtíma notkun.

Gerið því sjálfum ykkur þann greiða að eyða peningunum ykkar frekar í nytsamlegri hluti en gagnslaus fæðubótarefni. Í lokin langar mig að hvetja ykkur til þess að gera ykkar eigin litlu "rannsóknir" og leitið af áreiðanlegum upplýsingum í stað þess að trúa öllu sem stendur í oft á tíðum óvönduðum greinum eftir hinn og þennan "fitness gúrúinn" sem í flestum tilfellum hafa engar vísanir í heimildir byggðar á vísindalegri þekkingu og rannsóknum.

 

 

Heimildir:

Koehler K, Parr MK, Geyer H, Mester J, Schanzer W. Serum testosterone and urinary excretion of steroid hormone metabolites after administration of a high-dose zinc supplement. Eur J Clin Nutr. 2009;63(1):65-70.

Prasad AS, Mantzoros CS, Beck FW, Hess JW, Brewer GJ. Zinc status and serum testosterone levels of healthy adults. Nutrition. 1996;12(5):344-8.

Rogerson S, Riches CJ, Jennings C, Weatherby RP, Meir RA, Marshall-Gradisnik SM. The effect of five weeks of Tribulus terrestris supplementation on muscle strength and body composition during preseason training in elite rugby league players. J Strength Cond Res. 2007;21(2):348-53.

Saudan C, Baume N, Emery C, Strahm E, Saugy M. Short term impact of Tribulus terrestris intake on doping control analysis of endogenous steroids. Forensic Science International. 2008;178(1):e7-e10.