Author: Jacob Friis Saxberg
Author: Jacob Friis Saxberg

Flutningur frá Íslandi til Köben

30 September 2012 Lína Langsokkur

Þá var komið að því, Lína Langsokkur skyldi nú flytja í land sykurskattarins þar sem allt óhollt er bannað og allt er vistvænt, lífrænt og endurnýtt.

Menn hjóla allar sínar ferðir og fólk í mikilli yfirvigt er sjaldséð innan borgarmarka, kílóverðið af spínati lítið sem ekkert og grænmetissali á hverju götuhorni.

Maður hefði þá  haldið að fitnesskeppendur væru hér á hverju strái og allir væru með lífstíðaráskrift við einhverja ræktarstöðuna, tjah, ekki alveg. Hér eru fitnesskeppendur sérstök dýrategund sjáiði til, heldur sig mestmegnis í Temple Gym sem er niðri á Íslandsbryggju (íslands, nema hvað) og þykir heldur merkileg. Það eru ákveðnir forystusauðir og tilheyra þeir flokknum „Loaded Icons“, þetta lið er á heimsmælikvarða og eru jú öll í styrktasamning við búðina Loaded hér í borginni.

Þessu komst stelpan jú að strax á fyrstu dögunum. Auðvitað þurfti fröken langsokkur að finna sér góða búð, sem seldi henni góð efni til fæðubótar. Eftir smá vafr á veraldarvefnum rakst hún á Loaded, búð á Vesterbrogade sem sérhæfir sig í öllu fyrir ræktarunnendann, frá próteindufti til five fingers skóbúnaðar.

Eftir hjólatúr var hún þá stödd í Loaded, búðina sem styrkir fagmennina, eftir smá prufukeyrslu á dönskunni kom í ljós að konan á bakvið búðarborðið var ein af helstu bikinísaumakonunum í bænum, keppir sjálf og bauðst til þess að setja umrædda í beinasta samband við eigandann svo þekking á Fitnessmenningu Dana gæti dýpkað.

Þarna var þetta þá komið á hreint. Fitness fólkinu er safnað saman á hina ýmsu bletti á borgarkortinu s.s Temple Gym og Loaded. Eftir að hafa sett fröken Langsokk í samband við forsvarsmann Team Loaded er henni nú lítið annað að vandbúnaði en að láta sjá sig á komandi keppnum hér á landi, stefnan sett á vormánuði.

Umtöluð lætur sig þó hafa það að skera sig ögn úr hópnum og gerir sér ekki 40 min ferð niður að Islandsbrygge (þrátt fyrir nafnið) daglega til að lyfta lóðum með hinum jötnunum, hún fann sko aðra rækt sem er mun hentugri í staðsetningu og býður upp á mjög góða aðstöðu-þó svo söknuður frá ástkærri World Class banki stöku sinnum uppá. Stemningin innan þessara ræktarveggja er ekki alveg sú sama og Íslendingarnir eru vanir því dönsku píurnar eru ekki alveg jafn iðnar við lóðin og þær íslensku og halda sig gjarnan við hóptíma og skíðavélar. Aftur á móti eru nokkrar íslenskar konur fastagestir í þessari rækt og kunna þær því vel að rífa í járnið með tilheyrandi hljóðum og svitaperlum, hver veit nema fleiri danskar sláist í hópinn. Mikið er spekúlerað um bro-science hér og fær langsokkur oft pikk í öxlina og meðfylgjandi tips um hvernig best sé að haga hinu og þessu og gjarnan undrunarorð um lyftingaraðferðir s.s um hið ó svo skemmtilega FST-7 kerfi.

Hollu mataræði er auðvelt að fylgja í kóngsins, salatbarir eru hér út um alla borg, allt sem inniheldur mikinn sykur er dýrt, lágvöruverðsverslanir eru opnar til 22:00 á kvöldin og grænmetið er ódýrt, skyr er selt í hverri verslun og einnig hin alræmda 1,5% kotasæla sem er jú hreinn unaður. Eini ókostirnir sem Langsokkur hefur rekið sig á er að hún þarf sjálf að aðskilja eggin og fæðubótaefnin eru rándýr, hún hefur þó tekið til þess bragðs eftir góðfúslegar leiðbeiningar frá Naglanum, að versla sér fæðubótina á netinu og fá það sent frá Þjóðverjanum. Það er nefninlega svolítið vinsælt hjá Dananum að banna hluti og þar á meðal efni líkt og þau sem finnast í Pre-workout drykkjum, sem eru þó leyfilegir á flestum öðrum stöðum s.s Þýskalandi og Íslandi.

Flutningurinn virðist þá fara vel af stað hjá fröken Langsokk, hún rekst á ýmislegt dagsdaglega sem hún getur tengt við lífsstíl sinn og er á fullu að læra að þekkja land og þjóð þeirra sem eitt sinn réðu ríkjum yfir landi ísa. Uppgvötvanir og spennusögur verða reglulega birtar og vonar Lína að þið njótið þeirra.