Aðalheiður jólastelpa
Aðalheiður jólastelpa

7 leiðir til að halda sér í formi yfir hátíðarnar

20 December 2012 Konráð Valur Gíslason

Það getur verið erfitt að fylgja fitness lífstílnum yfir jól og áramót þegar endalaus jólahlaðborð, matarboð og konfekt eru fyrir framan þig nánast á hverjum degi. Hef ég því tekið saman 7 atriði til að hjálpa þér að standast freistngarnar.

 

Nr. 1. Ekki svelta þig!

Það að ætla að svelta sig yfir daginn til þess eins að geta raðað í sig um kvöldið er ekki vænlegt til árangurs. Best væri að byrja daginn á staðgóðum morgunmat eins og hafragraut og borða svo alltaf á 2–3 tíma fresti yfir daginn eins og alla aðra daga. Með þessu höldum við nokkuð jöfnum blóðsykri yfir daginn og þar með eru minni líkur á að við leitum í konfekt og smákökur. Þegar svo kemur að sjálfum hátíðarmatnum er svengdin ekki eins mikil og eru því meiri líkur á að við gætum hófs í mat og drykk. Þeir sem eru að reyna að auka við sig vöðvamassa skulu borða vel af kjöti en minna af sætindum.

Nr. 2. Drekktu vatn!

Drekktu nóg af vatni yfir daginn. Yfir jólin er oft saltur matur á borðum og er því nauðsynlegt að drekka nóg af vatni til að minnka vatnssöfnun í líkamanum.

Góð regla er að drekka stórt glas af vatni áður en byrjað er að borða því þá finnum við fyrr fyrir seddu tilfinningu.

Nr. 3. Æfðu vel!

Æfðu vel yfir jólin. Æfingar og hollt mataræði er svo oft samtvinnað. Hver vill fara að úða í sig konfekti strax eftir góða æfingu? Byrjaðu daginn á því að rífa í lóðin eða farðu út að hlaupa. Það gerir þér gott að fá smá útrás, skapið verður betra og líkurnar á því að þú farir að rífast við ættingjana í matarboðunum minnka verulega :)

Nr. 4. Ekki drekka kcal þínar.

Í einu glasi (200ml) af jólaöli eru 112 kcal og í einu glasi af kóki eru 86 kcal.

Það þarf því ekki mörg glös til að fylla kaloríu kvóta dagsins. Drekktu meira af vatni og skammtaðu þér gosið.

Nr. 5. Kauptu líka hollt!

Það er góð regla að eiga til nóg af ávöxtum, grænmeti, fitulitlum mjólkurvörum og öðrum hollum matvælum í ísskápnum. Það þarf ekki að leita alltaf í smákökur þegar nart þörfin kemur, mandarínur ættu að geta svalað sætindaþörfinni.

Nr. 6. Ekki eiga til afganga!

Ef þú ert að halda veislu og það verður mikið af afgöngum skaltu senda fólk heim með disk. Það er aldrei gott að sitja uppi með fullan ískáp af alls konar góðgæti sem þú svo endar með að éta næstu daga. Og já það má henda mat.

Nr. 7. Taktu vítamínin þín!

Þó að það séu jól er engin ástæða til að hætta að drekka próteindrykkina þína, glutamínið eða fjölvítamínin. Mundu að líkaminn stækkar í hvíldinni og oft fylgja jólunum nokkra daga frí og er því um að gera að nýta fríið í að hvílast vel á milli æfinga, borða vel og vonandi vaxa smá líka :)