Í hverju felst vaxtarrækt og fitness.

03 May 2015 Ragga Magg

Í augum flestra er vaxtarrækt og fitness áreiðanlega einstaklega framandi heimur, eða kannski öllu heldur stórfurðulegur og afbrigðilegur, ásamt því að vera ef til vill eilítið ógnvekjandi og jafnvel ógeðfelldur.

gisliSömuleiðis kann mörgum að þykja hann helst til flókinn og virðist vera nokkuð algengt að fólk eigi afskaplega  erfitt með að átta sig á flestu, ef ekki öllu sem við kemur þessum einkennilega heimi (og á það reyndar ekki einungis við um þá sem standa utan við fitness- og vaxtarræktarheiminn heldur einnig marga sem tilheyra honum). Að vísu kemur það ekki verulega á óvart. Því þegar kemur að þessum heimi er óhætt að segja að þar ríki almennt umtalsverður og gegnumgangandi glundroði og tvístringur meðal annars hvað varðar reglur, áherslur, dómforsendur, dómgæslu, umgjörð, fyrirkomulag og þar með talið sjálft nafnakerfið sem honum tilheyrir. En því er svo farið í þessum óreiðuheimi að í rauninni er ekki til neitt eitt alþjóðlegt yfirheiti sem nær yfir allar keppnisgreinarnar sem tilheyra honum. Öll heitin á keppnisgreinunum eru því tæknilega séð bara undirheiti, rétt eins og spjótkast, langstökk og 100 metra hlaup eru undirheiti á keppnisgreinum sem allar tilheyra yfirheitinu frjálsar íþróttir. Því hafa mörg okkar sem tilheyra þessum heimi hér á landi vanist á að tala um sportið (okkar) þegar allar keppnisgreinarnar eru til umræðu.

ifbbEkki bætir heldur úr skák að til eru fleiri hundruð vaxtarræktar og fitness félög víðsvegar um heiminn og þó þau fylgi flest fordæmi IFBB, þá geta reglurnar og dómforsendurnar að einhverju leyti verið  ólíkar milli félaga. Þar að auki getur fyrirkomulag og umgjörð einnig verið með lítillega mismunandi sniði eftir félögum (Bodybuilding Contests, 2014). En í grunninn er þetta samt sem áður vissulega allt saman að mestu leyti mjög keimlíkt að upplagi og keppnisgreinarnar almennt nokkuð sambærilegar milli félaga þótt heitin séu stundum ekki þau sömu. Auk þess sem að allar keppnisgreinarnar felast ávallt í því sama, þ.e.a.s. grundvallaratriðin eru alltaf þau sömu burtséð frá öllu öðru. Þar af leiðandi ætti ekki að fara á milli mála að um sé að ræða þetta tiltekna sport en ekki einhverja aðra íþrótt.

En merkilegt nokk, þrátt fyrir að vaxtarræktar- og fitness heimurinn eigi engan sinn líkan. Þá er það algengara en margan gæti grunað að fólk sem stendur utan við þennan heim gerir oft ekki greinarmun á þessu sérstæða sporti og öðrum íþróttagreinum eins og t.d. aflraunum, kraftlyftingum og þrekmeistaranum. Hitt er þó kannski annað mál og jafnframt langtum algengara að fólk sjái ekki neinn mun á þeim ólíku keppnisgreinum sem tilheyra vaxtarræktar- og fitness heiminum og leggi þær því allar að jöfnu. Enda eru þær óneitanlega nokkuð áþekkar að ýmsu leyti og því skiljanlegt að það gæti verið sérstaklega erfitt fyrir þá sem ekkert hafa kynnt sér þennan heim að sjá hversu ólíkar keppnisgreinarnar eru í raun og veru. En þá er aftur á móti ekki eins bersýnilegt og auðskilið hvers vegna margir eru ekki að átta sig á muninum á þessu sporti og aflraunum, kraftlyftingum og þrekmeistaranum og vilja sumir jafnvel skella öllum þessum gerólíku íþróttagreinum undir einn og sama háttinn. Ástæðurnar sem kunna að liggja þarna að baki eru án efa margvíslegar og sennilega einstaklingsbundnar, en líklega gæti það einna helst verið áhugaleysi á að kynna sér málin sem skilar sér í þessu þekkingarleysi.

maggisamÞað gæti þó vel hugsast að fleiri tildrög en áhugaleysi geti í einhverjum tilfellum mögulega útskýrt af hverju sumt fólk virðist eiga í svo miklum erfiðleikum með að tengja saman rétt heiti við rétta íþróttagrein (þ.e. úr hópi umræddra íþróttagreina). Til dæmis hefur trúlega einhver áhrif sú staðreynd að flest allir sem iðka þessar íþróttagreinar eiga það sameiginlegt að leggja stund á að rífa hressilega í járnið í ræktinni með reglubundnum hætti og deila þar með oft á tíðum ákveðnum útlitseinkennum eins og að bera áberandi meiri vöðvamassa heldur en telst vera eðlilegt. Hins vegar eiga þessir ólíku íþróttamenn og konur fátt annað sameiginlegt en lóðalyftingarnar og vöðvastælt útlitið sem þeim gjarnan fylgir, þ.e.a.s. eins og þau koma fyrir sjónir við hversdagslegar aðstæður. En markmiðin og áhersluatriðin í þjálfuninni eru gjörólík og keppnisaðstæðurnar gætu varla orðið mikið ólíkari meðal þessara íþróttagreina, og þar af er vaxtarrækt og fitness gjörsamlega sér á báti, eða eins og kaninn myndi segja one of a kind.

HronnwomansÞað er ýmislegt sem gerir vaxtarrækt og fitness að svo sérstakri íþrótt sem er engri annari lík. Fyrir það fyrsta, þá er þetta ekki einungis ákveðin keppnisíþrótt heldur vilja margir líta á þetta sport sem einskonar form af listgrein. Á það sérstaklega við um þær keppnisgreinar þar sem keppendur eiga að framkvæma rútínu við tónlist að eigin vali í einni af keppnislotunum. Rétt er að taka fram að til eru tvenns konar rútínu keppnislotur. Annars vegar pósurútínu keppnislota og hins vegar dans- eða fitnessrútínu keppnislota, en þó er engin keppnisgrein hvoru tveggja með pósu- og fitnessrútínulotu. Í eðli sínu eru þessar tvær gerðir af rútínum afar frábrugnar þar sem að áherslurnar eru verulega ólíkar, en samt sem áður eiga þær nokkur sameiginleg atriði. Til að mynda er það hægara sagt en gert að semja og framkvæma rútínu hvort sem um er að ræða pósu- eða dans/fitness rútínu og krefst það margvíslegra eiginleika ef vel á að takast. Í báðum tilfellum koma þar einna helst listrænir hæfileikar að miklu gagni ásamt ýmsu öðru eins og að hafa góða tilfinningu fyrir dansi og hreyfingum og gott eyra fyrir tónlist og takti. Í rauninni er þetta ekkert ósvipað því að semja og flytja fallegan og flæðandi dans sem harmónerar við viðeigandi tónlist.

hogglistamadurPósurútínan er þó ekki það eina sem hægt er að líta á sem listgrein, heldur er einnig sú athöfn að byggja upp og móta líkamann í rauninni ákveðin listgrein í sjálfu sér. En margir vilja líkja þessu saman við höggmyndalistina þar sem manneskjan sjálf er bæði höggmyndalistamaðurinn og höggmyndin sem unnið er að. Þannig er líkaminn eins og grjóthnullungur sem er meitlaður og slípaður til þangað til hinu fullkomna líkamsformi er náð, eða réttara sagt eins nálægt fullkomnun og mögulegt er. En þetta er einmitt nákvæmlega það sem allar keppnisgreinarnar ganga út á í höfuðatriðum. Þ.e.a.s. að byggja upp og móta líkamann á markvissan hátt, hvoru tveggja með þaulhugsaðri þjálfun og sérsniðnu mataræði. Með það loka takmark og jafnframt aðal markmið fyrir augum að ná fram ákveðnu fagurfræðilegu líkamlegu útliti þar sem megináherslan er lögð á vöðvastælingu (muscularity), jafnvægi (ballance), samræmi/samsvörun (symmetry), líkamslögun (shape) og ákveðin hlutföll (proportion) (Kennedy, 2008; Locks, 2012; Schwarzenegger & Dobbins, 1998).

tonyfreemanÞetta tiltekna útlit eða gullstandartinn sem flestir eru að sækjast eftir á uppruna sinn að rekja til Grísku höggmyndanna og því hefur þetta eftirsótta útlit jafan verið kallað „Hin klassíska fyrirmynd“ (The classical ideal) einnig þekkt sem „klassíska V-lögunin“ (classical V-taper), sem með tímanum hefur þróast áfram í svokallaða „X–byggingu“ (X–frame). Lýsir hún sér þannig að líkamsbyggingin í heild sinni myndar bókstafinn X þar sem víðar axlir og breytt bak dragast aflíðandi saman niður í grannt mitti og þaðan af tekur síðan við nett mjaðmagrind og þykk boglínulaga læri. Til þess að ná hinni fullkomnu X–byggingu skiptir beinabyggingin og líkamsgerðin augljóslega talsvert miklu máli sem hvoru tveggja ræðst fyrst og fremst af genatískum eiginleikum, en upp að vissu marki er samt sem áður mögulegt að móta líkamann með þjálfun (og mataræði) og hafa þannig einhver áhrif á lögun hans. En þar með er þó ekki öll sagan sögð, heldur eru fjölmörg önnur áhersluatriði mikilvæg í öllum keppnisgreinunum. Þar sem einnig er horft til vöðvaskurðar/-skerpu (muscular definition), rákóttrar áferðar á vöðvum (muscle striations), vöðvaskila (muscle separation), vöðvastærðar (muscle size), vöðvamassa (muscle mass), vöðvalögunar (muscle shape), vöðvaþéttleika (muscle density) og vöðvaþroska (muscle maturity) ásamt æðaberleika (vascularity). Áherslurnar í hverri keppnisgrein fyrir sig eru síðan aftur á móti gjörólíkar (Kennedy, 2008; Locks, 2012; Schwarzenegger & Dobbins, 1998).

vaxtoverÞví fer þó fjarri að skilgreiningin á vaxtarrækt og fitness takmarkist einungis við listir og íþróttir, heldur eru flestir, ef ekki allir sem tilheyra þessum heimi og iðka sína keppnisgrein af fullri alvöru á því máli að þetta sé einnig ákveðinn lífsstíll. Reyndar þekkist það líka að fólk stundi vaxtarrækt eða fitness einungis sem lífsstíl og líti þar með á sjálfan sig sem vaxtarræktar og/eða fitness manneskju þrátt fyrir að stíga aldrei á sviðið á lífsleiðinni. Enda eru bæði orðin í sjálfu sér margræðin og hefur margræðnin sú lengi verið vinsælt rökræðuefni meðal fólks. En hægt er að nota orðið fitness þegar átt er við hreysti eða líkamshreysti í þeirri merkingu að vera vel á sig kominn eða hafa góða líkamsburði. Síðan má sömuleiðis leggja þá merkingu í orðið vaxtarrækt að þetta sé hreinlega sú einfalda athöfn að rækta (líkams)vöxtinn eða byggja (upp) líkamann sé mið tekið af enska orðinu bodybuilding. Þar með getur hver sá sem stundar það að byggja upp líkamann tæknilega séð verið skilgreindur sem vaxtarræktarmaður/-kona (bodybuilder) og eins getur sá sem er í góðu líkamlegu formi verið skilgreindur sem fitness manneskja. Hitt er þó allt annað mál hvort menn séu sammála þessu eður ei og jafnan vilja þeir sem stunda þetta sport af fullri hörku sem keppnisíþrótt að gerður sé skýr greinarmunur á þeim og hinum sem ekki keppa. Því vissulega er himinn og haf á milli þess að stunda vaxtarrækt og fitness sem keppnisíþrótt eða einungis sem tómstundariðju, þó samt sem áður megi einnig réttilega líta á hvorutveggja sem lífsstíl.

unaheimsÞar með getur vaxtarrækt og fitness verið álitið einungis sem lífsstíll og/eða tómstundariðja annars vegar, þótt umdeilt sé og hins vegar allt í senn lífsstíll, listgrein og keppnisíþrótt, sem reyndar er einnig mjög umdeilt. Að þessu viðbættu vilja eflaust margir keppendur jafnframt líta á sína keppnisgrein sem tómstundariðju sér til gamans og yndisauka. Það má því með sanni segja að hægt sé að líta margvíslegum augum á vaxtarrækt og fitness og skilgreina á hina ýmsu vegu, og að lokum má raunar bæta við enn einu atriðinu við þessa fjölskrúðugu útlistun. En skemmst er frá því að segja að lengst af hefur vaxtarræktin verið álitin sem ákveðin menning eða kannski öllu heldur afbrigðilegur menningarkimi (subculture), og í dag má sannarlega gera ráð fyrir að það eigi einnig við um allar hinar keppnisgreinarnar. Enda tilheyra þær allar einum og sama vaxtarræktar og fitness heiminum.

Bodybuilding Contests. (2014). Organization Rules And Regulations  Retrieved 2. febrúar, 2015, from http://www.bodybuilding.com/fun/rules-and-regulations.htm

Kennedy, R. (2008). Encyclopedia of bodybuilding: The complete A-Z book on muscle building. Mississauga, ON: Robert Kennedy Publishing.

Locks, A. (2012). Introduction. In A. Locks & N. Richardson (Eds.), Critical Readings in Bodybuilding (pp. 1-18). New York: Routledge.

Schwarzenegger, A., & Dobbins, B. (1998). The new encyclopedia of modern bodybuilding. New York: Simon & Schuster.