Janúar á Norðurbrú

27 January 2013 Lína Langsokkur

Janúar er að klárast hér hjá Línu rétt eins og á klakanum. Sá hefur svo sannarlega verið kaldur hér í Köben. Lína hefur fyrir vikið lært hvernig almennilega megi hlífa hárlitlum skrokknum við kuldabola þegar þotist er um götur borgarinnar á tvíhjóla fáknum, þá kemur íslenska ullin nautsterk inn.

Föðurlandið yfir nærbuxurnar, þykkar leggings þar ofan á, fóðraðar joggings og loks vindbuxur. Hingaðtil hefur ekkert lag gleymst þegar klósettferðir eru annarsvegar.

 Hin árlega fólksfjölgun í ræktinni á sér jafnan stað hér á Norðurbrú sem og í Reykjavík og mátti Lína finna vel fyrir því sérstaklega í upphafi mánaðar þegar skápar í skiptiklefa voru á skornum skammti og öll hlaupabretti í notkun. Við getum öll verið sammála um hversu jákvætt það er þegar fleiri fara að stunda líkamsrækt en Jesús Pétur hvað allar umgengis-og hegðunarreglur vilja fjúka út um gluggann þessa fyrstu mánuði ársins.

Það væri nú fínt ef nýir meðlimir fengju smá „intró“ kúrs um hvernig megi ganga frá lóðum eftir sig, þurrka svita svo ekki sé minnst á að sú vísa verður aldrei of oft kveðin “no curling at the squat rack!”. Besta leiðin þó fyrir okkur hin er bara að sýna gott fordæmi og benda kurteisislega á reglurnar, ef maður þorir. 

Lína fær einnig aukna athygli með tilkomu nýrra meðlima þegar víkingarumurnar og stunurnar heyrast frá rauðhærðu ungmeynni í síðasta repsi, ungmeyjan vonar að þetta hvetji menn til að taka almennilega á því eins og lenskan er á eldfjallaeyjunni. 

Lína er líka alltaf á höttunum eftir spennandi matvælum sem geta nýst henni í litla eldhúsfermetranum.

Síðast fékk hún upp í hendurnar Sykurlausa Sweet Chilli sósu en þeirrar gleði hefur hún saknað innilega síðan hún heimsótti frónið yfir jólamessuna, Danir standa ekki í miklum innflutningi á matvælum þar sem það raskar efnahagsjafnvæginu og vilja að Danir láti sér danskt næga ( mátt sleppa en svona er þetta). Nú verður þessum myndarskap drisslað pent yfir grænmetið næstu vikur, eða þangað til varan verður uppseld.