Háreyðing fyrir keppni

25 September 2012 Einý Gunnarsdóttir

Fyrir keppni er mikilvægt að huga að háreyðingu. Vax, rakstur, háreyðingarkrem, plokkun og  laser eru allt aðferðir til að losna við óæskileg hár.

 Vax

Vaxmeðferð er ein vinsælasta háreyðingaraðferð fitnesskeppenda. Meðferðin er auðveld og fljótleg og hentar hún á stór svæði líkamanns. Endurvöxtur háranna er 3-6 vikur en það fer eftir líkamssvæðum og grófleika hársins. Best er að fjarlægja hárin þegar þau eru að meðaltali sex millimetrar að lengd.

Kostir: Fljótlegt, hentar vel á stór svæði, lengur laus við hárin en eftir rakstur. Endurvöxtur háranna getur orðið hægari eftir meðferð og hár ljósari og fíngerðari.

Gallar: Sársauki á meðan meðferð stendur, ekki varanleg háreyðing, getur orsakað aukinn hárvöxt. Húðin er mjög viðkvæm eftir vaxmeðferð og huga þarf að eftirmeðferð. Hætta á sýkingu.

Ráðleggingar eftir vaxmeðferð:

Mikil hætta getur verið á sýkingu næstu 24 stundir eftir vaxmeðferð og mikilvægt er að varast  ljósabekki, gufuböð, líkamsrækt, sund, önnur krem en aloa vera, sápur og nælonsokka. Einnig er ekki mælt með því að vera strjúka með höndunum yfir meðferðarsvæðið. Gott er að skrúbba húðina létt daginn eftir með fíngerðum skrúbbhanska í sturtunni til þess að hindra inngróin hár.

Rakstur

Við rakstur styrkist hárrótin svo að nýja hárið sem að kemur upp verður dekkra og grófara. Mikilvægt er að nota gel eða raksápur til þess að erta ekki húðina.

Kostir: Ódýrt, einfalt, fljótlegt og sársaukalaust.

Gallar: Ekki varanleg háreyðing. Öll hárin koma upp í einu eftir örfáa daga. Hárið verður dekkra, grófara og með sterkari rót.

waxingHáreyðingarkrem 

Til eru margs konar háreyðingarkrem á markaðinum. Lesa þarf vel leiðbeiningar og það þarf að gera húðprufun sólarhring áður en háreyðingarkremið er borið á.

Kostir: Sársaukalaust, fljótlegt og hár koma mýkri upp en eftir rakstur.

Gallar: Ekki varanlegt og hárin vaxa fljótt upp aftur.

Plokkun

Við plokkun er hvert hár tekið upp með rótum eitt í einu en það kemur aftur eftir nokkurn tíma.

Kostir: Fjarlægðir hár frá rót. Gott að móta t.d. augabrúnir. Hárið er lengur að koma upp en eftir rakstur.

Gallar: Óþægilegt, seinvirkt og hentar ekki á stór svæði. Getur aukið hárvöxt.

Laser meðferð

Laser meðferð er varanlegasta aðferðin. Laser meðferðin er jafnframt sú dýrasta. Hún er eingöngu gerð á stofum hjá snyrtifræðingum, húðsérfræðingum eða öðru fagfólki.

Orsök óæksileg hárvaxtar eru:

Röskun á hormónajafnvægi, meðganga, getnaðarvarnapillan, breytingaraldurinn, kynþroski, bólgur á eggjastokkum, erfðir, utanaðkomandi áreiti, álag, streita, röskun á innkyrtlastarfsemi og lyfjanotkun.