6 atriði sem ber að hafa í huga þegar byrjað er að æfa aftur eftir langt hlé

31 December 2012 Konráð Valur Gíslason

Nú þegar nýtt ár er að ganga í garð má ætla að ansi margir hafa sett sér það markmið að æfa meira á nýju ári. Nokkur atriði þarf þó að hafa í huga áður en lagt er af stað í átt að nýjum lífstíl.

1) Ekki fara of geyst af stað!

Hversu oft sjáum við líkamsræktarstöðvar landsins fyllast af fólki í janúar og tæmast svo aftur í febrúar. Vertu skynsamur og mundu að þetta á að verða lífstíll en ekki skyndilausn.

2) Raunhæf markmið!

Settu þér raunhæf markmið og ef þú veist ekki hvað eru raunhæf markmið fáðu þá hjálp við markmiðasetningu. Markmið geta verið í formi kilóa, fituprósentu, fjölda æfinga, styrktarbætinga osfv. Það er fátt eins lýjandi og að setja sér markmið sem þú nærð svo ekki. Byrjaðu á auðveldu markmiði eins og að ná að mæta 3 sinnum í ræktina í viku. Næsta markmið gæti svo verið 3 æfingar í viku ásamt því að borða alltaf hollan morgunmat. Smá saman verða markmiðin meira krefjandi og á meðan þú nærð þeim styrkist sjálfstraustið og þessi lífstíll verður skemmtilegri og meira gefandi. Markmið geta verið bæði skammtíma sem og langtíma. Skammtíma markmið gætu verið fyrir daginn, vikuna eða mánuðinn. Langtíma markmið aftur á móti fyrir hálft ár eða ár. Aðalatriðið er að hafa eitthvað til að vinna að.

rsz 1fingaflagi
3) Hafðu æfingarnar skemmtilegar!

Ef þér finnst leiðinlegt að mæta í ræktina reyndu þá að fá æfingafélaga. Góður æfingafélagi er dýrmætur, hann getur hvatt þig áfram þegar þú ert við það að gefast upp og verið þér aðhald í ræktinni. Nú ef að lóðin eru ekki að heilla má líka prófa að fara í hóptíma eins og spinning, buttlift eða crossfit. Hver hreyfingin er skiptir ekki öllu máli, bara að þú sért að hreyfa þig og þannig styrkja vöðvana sem og hjarta- og æðakerfið.

Þú verður að hafa gaman af þeirri hreyfingu sem þú ert að stunda annars muntu ekki endast lengi.

4) Fáðu hjálp!

Flestar líkamsræktarstöðvar landsins bjóða upp á þá þjónustu að kenna þér á tækin, hanna fyrir þig prógram, mæla þig hátt og lágt og jafnvel setja niður með þér markmið. Þetta skaltu nýta þér! Af hverju að reyna að klóra sig fram úr þessu sjálfur. Kannski varstu að lyfta fyrir 15 árum og telur þig kunna allt en tækin breytast sem og áherslunar. Fáðu hjálp!

5) Mataræðið!

Það getur reynst mörgum erfitt að taka mataræðið í gegn. Oft reynist gott að byrja á því að einbeita sér að hreyfingunni, þegar hún er orðin að vana og þér finnst óhugsandi að missa úr æfingu þá er kominn tíma til að taka til í mataræðinu. Borða alltaf morgunmat, borða reglulega yfir daginn, minnka gosið og bara nammi á laugardögum eru dæmi um góða byrjun. Seinna má svo huga að því að auka próteinmagn í fæðu, minnka óholla fitu og taka út einföld kolvetni.

6) Hlustaðu á líkamann!

Ef þú ert orðinn mjög þreyttur í líkamanum þá er kominn tími til að skoða hvort þú sért að hvílast nóg á milli æfinga, hvort þú sofir nóg eða jafnvel hvort þú sért að nærast nóg eða rétt. (Þá skal skoða aftur atriði 4.)

Lærðu að þekkja muninn á milli vöðvaverkja og liðverkja, það er ekkert óeðlilegt að þú fáir harðsperrur í vöðva þegar þú ert að byrja að æfa aftur eftir langt hlé en um leið og þú finnur fyrir eymslum í liðum eða mjóbaki skal leita hjálpar hjá sjúkraþjálfara og fá greiningu á vandanum.