Sandra Jónsdóttir

Sandra JónsdóttirFæðingardagur: 7. febrúar 1986

Flokkur: Módel fitness

Keppnisbakgrunnur:
2. sæti hjá IFBB módel fitness árið 2012
11. sæti Arnold Classic bikini fitness árið 2012
4. sæti IFBB módel fitness árið 2011
1. sæti WBFF bikini fitness árið 2011

Á hvaða mótum hefurðu keppt og hvernig gekk? 

Fyrsta mótið mitt  var haustið 2011 hjá WBFF sem var í fyrsta sinn sem þeir héldu mót í evrópu. Ég keppti í bikini flokk og vann þar lægri flokkinn og ávann mér um leið svo kallað pro card sem gerir mér kleift að keppa á  heimsmeistaramóti WBFF í Kanada. Eftir þó nokkra umhugsun ákvað ég hins vegar að afþakka pro card-ið, ástæðan var sú að mig langaði að keppa meira hérna heima og eins langaði mig að  keppa á vegum IFBB á Arnold classic í Ameríku. 2 vikum eftir WBFF mótið keppti ég á bikarmóti IFBB í Háskólabíó og mætti þar þó nokkuð sterkari keppendum og endaði í 4 sæti í mínum hæðarflokki :) Ég ákvað svo að keppa á Arnold classic amateur í USA í mars mánuði 2012 þangað hélt ég ásamt hópi stelpna til að sigra Ameríku, þó að árangurinn hjá stelpunum hafi verið frábær, 1. sæti , 2. Sæti, 3. Sæti, 4. Sæti, 5. Sæti, 6. Sæti 8. Sæti og 9. Sæti þá komst ég því miður ekki í topp 10 þetta sinnið en eins og Arnold segir "I´ll be back". 4 vikum eftir Ameríku ferðina keppti ég svo á Íslandsmóti IFBB þar sem 80 stelpur kepptu í 5 flokkum í model fitness, ég lenti í 2 sæti í mínum flokki. Þannig að á 5 mánuðum hef ég keppt á 4 mótum, 1 gull, 1 silfur, 4. sæti og eigum við ekki að segja 11. sæti :) En annars varð ég ólétt rétt eftir Íslandsmótið en ég kem til með að mæta aftur til leiks á næsta ári!

Hvernig gengur að sameina nám og æfingar?

Ég er að læra að verða einkaþjálfari í  einkaþjálfaraskóla World class. Þetta er mikið til kennt á kvöldin og um helgar þannig að ég næ að æfa vel þessa dagana. Tek stundum æfingu tvisvar sinnum á dag þó að ég sé ekki í undirbúningi fyrir mót. Fer í spinning að morgni til og lyfti svo eftir hádegi.

Hvers vegna ákvaðstu að keppa í fyrsta sinn?

Ég sá myndir af einhverjum stelpum sem voru í þessu og mig langaði að prófa þetta líka. Upphaflega var stefnan bara sett á eina keppni (Bikarmótið sem var í nóvember 2011) en svo fannst mér þetta svo gaman og skemmtilegur félagsskapurinn í kringum sportið þannig að ég ílengdisdt í þessu og er enn að :)

Hvaða bakgrunn hefurðu í íþróttum?

Þegar ég var yngri prufaði ég margar íþróttir, t.d. samkvæmisdans, djassballet, frjálsar og karate en entist aldrei í neinu og  hætti alltaf eftir 1-2 ár. Svo þegar ég var 18 ára (byrjun ársins 2004) lenti ég í slysi og ég þurfti að læra að ganga aftur. Ég fékk hlaupabretti til að æfa mig að ganga á og smá saman fór ég að geta hlaupið þannig að ég hljóp bara og gerði kviðæfingar heima hjá mér af því ég þorði ekki að fara í líkamsræktarstöð og láta neinn sjá hvað ég hlypi asnalega ( var ennþá ekki komin með fulllt jafnvægi ). Svo minnir mig að það hafi verið um áramót 2010 sem ég keypti kort í World class en ég byrjað auðvitað bara á að fara í einhverja „konutíma“ því ég þorði ekki að vera mikið í tækjasalnum því mér fannst ég svo öðruvísi. Svo setti ég mig í samband við Konráð Gíslason þjálfara í kringum jólin 2010 og með hans hjálp þorði ég að færa mig yfir í lyftingarsalinn.

Ertu með æfingarfélaga?

Þegar ég ákvað að taka þátt í módelfitness þá spurði ég í afgreiðslunni í Laugum hver væri besti þjálfarinn til að undirbúa mig fyrir mót og mér var bent á nokkra þjálfara. Ég skoðaði listann og ákvað að athuga hvort Konráð Gíslason væri til í að þjálfa mig. Ég byrjaði í fjarþjálfun hjá honum, og svo fór ég í einn og einn tíma hjá honum því maðurinn er rosalega bókaður og það var einfaldlega ekki möguleiki á öðru. Svo var það eftir áramótin 2012 sem ég fór að æfa með stelpu sem var að stefna á sitt fyrsta mót. Við sem sagt æfum saman í dag þegar hún sefur ekki yfir sig :)

Hvernig skiptir þú niður æfingunum þínum?

Mánudagur: Axlir, tvíhöfði ( létt ), kviður
Þriðjudagur: Fremri læri, kálfar
Miðvikudagur: Bak og kviður
Fimmtudagur: Brjóstvöðvar ( létt ), bossi
Föstudagur: Axlir ( létt ), þríhöfði ( létt ), kviður
Laugardagur: Aftan á læri, bossi
Sunnudagur: Frí

Mér finnst skemmtilegast að æfa læri og rass þar sem að það eru mest krefjandi æfingarnar og eins þá eru þetta vöðvarnir sem ég þarf helst að stækka fyrir næsta mót.

Ferðu á pósunámskeið?

Já ég hef farið tvisvar sinnum á  pósunámskeið og ég mæli hiklaust með því... það er algjörlega nauðsynlegt að fara á pósunámskeið til að fá að vita hvernig á að haga sér á sviðinu og eins til að fá að vita hvað pósur henta þínum líkama. Það eru líka svo miklir snillingar og reynsluboltar að kenna þannig að maður tekur mark á öllu sem þau segja.

Hvaða fæðubótarefni notarðu?

Ég nota eingöngu fæðubótarefni frá QNT, uppáhaldið mitt í dag er Metapure Q2 og NO Elite.

Eitthvað að lokum?

Til þeirra stelpna sem eru að hugsa um að keppa, vöðvar og flott form er ekki eitthvað sem gerist á einni viku, þetta tekur tíma og þið þurfið að vera þolinmóðar, góðir hlutir gerast hægt.  Ég vil þakka fjölskyldunni minni fyrir að styðja alltaf við bakið á mér. Mig langar að segja takk endalaust við Konna þjálfara fyrir að nenna að hafa mig í þjálfun af því ég er örugglega ekkert auðveldasti kúnninn með mitt skakka bak og kraftlausu hægri hlið. Þegar ég þurfti að byrja á því að læra að skríða fyrst eftir slysið þá bjóst enginn við því að einn daginn myndi ég fara ásamt nokkrum öðrum stelpum alla leið til Ohio á Arnold classic að keppa á bikiníinu einum fata. Takk Konni :)