Katrín Ösp Jónasdóttir

Katrín Ösp

Fæðingardagur: 15.06.1992

Flokkur: Módelfitness

Keppnisbakgrunnur:
IFBB 2013 Íslandsmót, módelfitness -168 cm flokkur. 5 sæti

Við hvað starfar þú?

Ég er að vinna í útibúi Íslandsbanka á Eiðistorgi og vinn þar þangað til ég fer í nám við Háskóla Reykjavíkur í haust. Þar ætla ég að læra rekstrarverkfræði.

Hvernig gengur að sameina vinnu, nám og æfingar?

Það hefur gengið mjög vel. Ég dýrka að geta stjórnað æfingartímanum sjálf, þannig er auðveldara að koma öllu fyrir í dagsplanið. Það krefst bara mikils skipulags og aga og þar sem mér líður alltaf lang best þegar ég hef nóg að gera þá gæti þetta ekki hentað mér betur.

Hvers vegna ákvaðst þú að keppa í fyrsta sinn?

Ég hef lengi fylgst með þessu sporti og hef eiginlega alltaf vitað innst inni að ég myndi enda í fitnessinu eftir fimleikana. En ég ætlaði mér alltaf að keppa í hraðaþrautinni þegar ég var lítil og horfði alltaf á kvennafitnessið með mömmu og pabba og dáðist af þessum hörku kvennmönnum. En svo þegar hætt var með þrautina þá kom ákveðið bakslag í fitnessáætlunina mína. Þar sem ég hef alltaf verið mikill íþróttamaður í mér fannst mér erfitt að samþykkja það að hnykla vöðvana á bikiníi og háum hælum einum fata á sviði vera nógu mikil íþrótt fyrir mig. Svo kynntist ég Rakel Norðfjörð sem var að fara að keppa og ég fór að æfa með henni og kveiknaði þá aftur fitnessáhuginn. En eftir að hafa kynnst þessum stífu æfingum og heraga sem til þarf til að keppa í fitnessinu þá hreinlega var ekki aftur snúið.

Hvaða bakgrunn ertu með í íþróttum?

Ég æfði fimleika í ca 14 ár. Einnig hef ég stundað ræktina mikið frá 16 ára aldri þar sem ég hef þurft að taka pásur frá fimleikunum vegna hnjámeiðsla.

Hvað varstu búin að æfa lengi áður en þú kepptir í fyrsta sinn?

Ég ákvað ekki nema 10-11 vikum fyrir mót að keppa en ég hef alltaf verið í góðu formi og hef verið að lyfta með fimleikunum síðan ég ca 16-17 ára.

Finnst þér sem þinn bakgrunnur í íþróttum hafa hjálpað þér í módelfitness?

Já klárlega. Held að fimleikar sé einn besti grunnur sem þú getur haft fyrir hvaða sport sem er.

katrin oesp jonasdottir 2 20130810 1427658884Færðu stuðning frá fjölskyldu og vinum þegar þú ert í niðurskurði?

Já ég mjög góða að og það styðja allir við bakið á mér. Það hjálpar ótrúlega mikið og er ég mínum nánustu svo endalaust þakklát fyrir það. Þar sem ég súkkulaði- og kökusjúk þá þarf ég góðan stuðning við að ná að koma því úr mataræðinu í niðurskurðinum.

Hver eru markmið þín innan sportsins?

Að ná að bæta mig milli móta. Til dæmis er markmið mitt núna fyrir næsta mót að bæta bak og rass.

Áttu þér einhverja fyrirmynd í sportinu hér heima eða úti?

Mér finnst fátt meira hvetjandi en að sjá fólk vera að taka á því og eiga sér greinileg langtíma markmið. Fólkið sem ég sé í ræktinni nánast daglega púlandi veita mér til dæmis mikinn innblástur. Stundum gleymi ég mér við það að dást af metnaðarfullu fólki í kringum mig í ræktinni. Ég hreinlega dýrka að sjá fólk með mikinn metnað, ég fæ ákveðið búst við það. Þannig allir sem eru í þessu af réttum forsendum og stunda heilbrigt líferni eru mér sem fyrirmyndir.

Hvar finnst þér best að æfa og af hverju?

World Class Laugum. Þar er allt til alls, öll tæki og Konni þjálfari er þar öllum stundum þannig maður getur alltaf hent á hann spurningar. Það er líka gaman að fara á aðrar World Class stöðvar þegar maður vill tilbreytingu eða er staddur annars staðar sem er ótrúlegur kostur.

Æfirðu ein eða ertu með æfingafélaga / einkaþjálfara?

Ég er í einkaþjálfun þrisvar í viku hjá Konna með tveim frábærum æfingarfélugum; Rakel Vilhjálms og Andreu Sif. Svo hina dagana æfi ég oftast ein eða með stelpunum.

Hvernig er týpískur dagur í þínu lífi?

Hjóla í vinnuna, tek oft morgunæfingu þá aðallega cardio og teygjur,  fer í sturtu og borða svo morgunmat. Er mjög heppin að hafa sturtuaðstöðu í vinnunni hjá mér. Svo tekur við vinna til half fimm og svo æfing. Síðan hjóla ég heim og elda mér mat og á svo kósýstund með kærastanum, fjölskyldunni eða vinunum.

Hvað æfirðu oft í viku í niðurskurði?

Í niðurskurði æfi ég ca 12 sinnum í viku, morgunbrennsla og lytingaræfing 6 daga vikunnar og svo einn hvíldardagur. Æfi ekki eins stíft offseason en er mjög ofvirk og líður lang best þegar ég er að hreyfa mig. Reyni samt að hlusta vel á líkaman og taka því rólega inn á milli þegar líkaminn er þreyttur. Tek þá frekar minna á því og tek góðar teygjuæfingar og fer í jóga.

Hvað lyftirðu oft í viku og hvernig skiptirðu líkamanum niður?

Ég lyfti 6 sinnum í viku.
Mánudagur: Axlir og þríhöfði
Þriðjudagur: Fætur og kálfar
Miðvikudagur: Bak og kviður
Fimmtudagur: Rass og tvíhöfði
Föstudagur: Brjóst og axlir
Laugardagur: Hamstrings, rass, kálfar og kviður
Sunnudagur: Hvíld

Hvaða líkamspart finnst þér skemmtilegast að æfa?

Úff.. Þetta er eins og að gera upp á milli barnanna sinna, ég á reyndar engin börn en ég get ímyndað mér að þetta sé svipað!

Hver er uppáhalds æfingin þín?

Ætli að það séu ekki rassaæfingar í augnablikinu þar sem ég þarf að bæta hann mest.

Hefurðu farið á pósunámskeið?

Já klárlega! Fór á pósunámskeið Icelandfitness og Magga Sams og mæli eindregið með því. Það eflir sjálfstraustið um muna og maður lærir að koma fram. Framkoma skiptir gífurlega miklu máli og maður þarf að æfa hana eins og allt annað. Ég vil hreinlega ekki ímynda mér hvernig það hefði verið að keppa án þess að hafa farið. Þetta var orðið svo sjálfsagt og gaman eftir námskeiðið þannig ég var ekkert stressuð á mótinu sjálfu og gat notið þess til fullustu að vera á sviðinu að sýna árangur erfiðisins.

katrin oesp jonasdottir 5 20130810 1007567847Hvað tekurðu langan tíma í niðurskurð?

Ég tók síðast um tíu vikur held ég síðast. Ég held það fari bara eftir forminu hverju sinni og ég fer bara eftir Konna þjálfara, treysti honum 100%.

Vigtaðu matinn í niðurskurði?

Já ég reyni það en svo verður maður svo vanur skammtastærðinni og fer að geta sirkað þetta út.

Hver er uppáhalds máltíðin þín þegar þú ert að skera niður?

Mér finnst mataræðið í niðurskurðinum allt mjög gott. Elska kjúkling og fisk og borða mikið að því og leik mér að því að útbúa á ýmsa vegu. Síðan dýrka ég grænmeti og reyni að hafa það fjölbreytt. Hafragrautur með próteini, kanil og eplum er líka í uppáhaldi og ég elska ommelettur með alls kyns útfærslum af grænmeti. Mér finnst líka ótrúlega gaman baka úr eggjum, próteini og höfrum og geri þá pönnukökur, hafrakökur og nota oft gulrætur, epli, kanil og fleira til tilbreytinga. Fæ bara vatn í munninn við tilhugsunina!

En í offseason?

Ég er algjör matgæðingur og elska að borða. Borða samt aðallega frekar hreina fæðu og er ekki fyrir unnin mat. En ef ég þarf að velja eitthvað uppáhald þá væri það humar og hamborgarar hjá pabba held ég. Síðan elska ég súkkulaði og kökur og á oft mjög erfitt með að bíða fram á nammidag með þann munað!

Hvaða fæðubótarefni notarðu?

Ég nota prótein(whey og casein), vítamín, CLA, glútamín og svo stundum kreatín. Síðan fæ ég mér stundum orkudrykki fyrir erfiðar æfingar eða þegar ég er kannski þreytt eða ekki alveg nógu vel upplögð. En þá hef ég notað amino energy, curse, no explode og er núna að prófa ripped freak. Er frekar ný í þessu þannig ég er ennþá að reyna finna þau fæðubótarefni sem henta mér best.

Hefurðu farið til íþróttasálfræðings?

Ekki ein og sér. En þegar ég var fimleikum þá fórum við hópurinn stundum saman og var það frábært. Hjálpaði upp á sjálfstraust, markmiðasetningu og fleira sem skiptir miklu máli í allri íþróttariðkun og bara í lífinu almennt.

Ferðu reglulega í nudd?

Við í vinnunni höfum stundum fengið Öggu (er með aðstöðu á Nesinu í World Class) til okkar. Hún er frábær og mæli klárlega með henni! Síðan er ég einnig með nuddrúllu heima sem ég nota mikið.

Hlustarðu á tónlist þegar þú æfir?

Það er ótrúlega misjafnt. Hlusta mikið á útvarpið þegar ég er að hjóla og á cardioæfingum og geri það líka oft þegar ég er að lyfta ein. En þegar ég er með einhverjum þá geri ég það væntanlega ekki og nýt félagsskapsins.

Tekurðu kolvetnislækkun og hleðslu síðustu vikuna fyrir mót?

Ég var á mjög kolvetnislitlu mataræði í niðurskurðinu og tók hleðslu tvo daga fyrir mót. Borðaði þá mikið af kolvetnum, þá aðallega poppkex, sætar kartöflur, glúkósa og nautasteik.

Tekurðu einhverja vatnslosun vikuna fyrir mót?

Tók væga vatnslosun síðast en held ég geri það ekki aftur.

Hvað finnst þér þú þurfa að bæta fyrir næsta mót?

Klárlega stækka rassinn og fylla betur bakið. Svo vil ég bæta pósurnar og sviðsframkomuna. Maður getur alltaf gert betur og getur alltaf bætt sig, það er það sem gerir þetta einmitt svo skemmtilegt.

Hvað finnst þér um þennan frábæra árangur sem íslenskir keppendur eru að ná á erlendum mótum?

Það er alveg hreint frábært. Maður fyllist þjóðarstoltinu og það hvetur mann líka áfram.

Hefurðu áhuga á að keppa erlendis?

Það er á dagskrá hjá mér fara út. Þá næst vonandi á Arnold í Ameríku 2014. En ég er svo ný í þessu þannig ég hef ekki alveg náð að skoða allt sem er í boði.

katrin oesp jonasdottir 3 20130810 1655438456Hversu mikilvægt er að hafa sponsa?

Það hjálpar mjög mikið! Þar sem þetta getur verið mjög dýrt og þá sérstaklega fyrir keppnir. Svo er það líka gott andlega, maður fær aukinn stuðning við það, það finnst mér allavega.

 

Hvaða sponsa ertu með?

Fyrir síðasta mót var ég með
Prótín.is, Austurbæjarapótek, Neglur Önnu Grétu, Sillu Make-up, Bailine, Under Armour og World Class styrkti mig með baðstofuaðgang sem var alveg frábært! Það að geta slappað af þar og þurfa ekki að hafa eitt til tvo sveitt handklæði í töskunni gera daginn svo miklu auðveldari.

Ertu með einhver ráð fyrir þær stelpur sem eru að stíga sín fyrstu spor í þessu sporti?

Að vera viss um að hafa kynnt sér þetta vel og vita út í hvað er verið að fara. Maður verður að fara í þetta á réttum forsendum og hafa gaman af þessu. Þér verður að finnast þetta gaman og hafa mikinn áhuga á heilbrigðu líferni. Ekki taka þátt í þessu sem einhvers konar átak og pína þig áfram það er ekki hollt andlega og fólk getur farið illa út úr því. Þetta er allaveg mín skoðun. Maður á að gera þetta fyrir sjálfan sig og þetta á að efla mann.

Eitthvað að lokum?

A champion is someone who gets up, even when he can't.