Júlíus Þór Sigurjónsson

Júlíus ÞórFæðingardagur: 18. febrúar 1981

Flokkur: Vaxtarrækt -80 kg

Keppnisbakgrunnur:
2010 IFBB Bikarmót vaxtarrækt – 85kg flokkur 3. sæti
2009 IFBB Íslandsmót vaxtarrækt -85kg flokkur 3. Sæti
2008 IFBB Bikarmót vaxtarrækt opinn flokkur 2. sæti
2007 IFBB Bikarmót vaxtarrækt opinn flokkur 4-7. sæti
2003 Galaxy fitness fitness 9. Sæti

Við hvað vinnurðu?

Er menntaður sem grunnskólakennari og vinn sem slíkur í grunnskóla í Kópavogi.

Hvernig gengur að sameina vinnu og æfingar?

Það gengur mjög vel því vinnutíminn og vinnuramminn passar vel við þetta tiltekna sport. Kaffitímar og matartímar á tímum sem henta vel í þessu sporti.

Hvers vegna ákvaðst þú að keppa í fyrsta sinn?

Langaði að prufa að stíga á svið og sjá hvort að það væri eitthvað sem ætti við mig. Sé ekki eftir því í dag.

Hvaða bakgrunn ertu með í íþróttum?

Ég hef meira og minna verið að æfa íþróttir síðan ég var 4. ára gamall. Ég hef prufað flestar íþróttir en var lengst af í frjálsum, fimleikum og svo tæp 16 ár í körfubolta hjá Breiðablik.

Hvað varstu búin að æfa lengi áður en þú kepptir í fyrsta sinn?

Var búinn að vera að „fikta“ við lyftingar samhliða körfunni í einhver ár en fór að æfa fyrst fyrir alvöru svona í kringum 2006-2007.

Finnst þér sem þinn bakgrunnur í íþróttum hafa hjálpað þér í vaxtarrækt?

Tvímælalaust! Frjálsarnar og fimleikarnir tel ég hafa mótað góðan grunn fyrir mig í vaxtarræktinni.

Færðu stuðning frá fjölskyldu og vinum þegar þú ert í niðurskurði?

Ég fæ stuðning frá minni nánustu fjölskyldu en annars er það þannig að flestir í fjölskyldunni þekkja þetta sport svo lítið og skilja ekki alveg útá hvað það gengur þannig að þau skilja ekki alltaf hvers vegna ég er að leggja þetta allt saman á mig.

Hver eru markmið þín innan sportsins?

Ná því besta fram í sjálfum mér en fyrsta litla markmiðið af mörgum er að vinna einhvern tímann overall titilinn í vaxtarræktinni.

Áttu þér einhverja fyrirmynd í sportinu hér heima eða úti?

Hér heima hefur það alltaf verið Jón Páll heitinn, var ekki nema smápjakkur þegar ég byrjaði að fylgjast með honum og hans afrekum. Mér fannst og finnst enn mikið til hans koma hvort sem það er í aflraununum eða vaxtarræktinni. Einnig hafði ég mjög gaman af honum Kristjáni Ársælssyni þegar Galaxy-fitnessið var uppá sitt besta :). Erlendar fyrirmyndir höfða einnig mikið til mín en þar kemur sterkastur inn Phil Heath ásamt Kai Greene. Miklir hugsuðir og skemmtilegir performerar.

Hvar finnst þér best að æfa og af hverju?

Finnst lang best að æfa í World Class Laugum þar sem ég hef nánast allt sem ég þarf. Einnig spilar félagsskapurinn mikið inní. En annars tel ég mig nú geta æft nánast hvar sem er þar sem lóð eru.

Æfirðu einn eða ertu með æfingafélaga?

Mjög misjafnt, hef haft allnokkra æfingafélaga í gegnum tíðina og einnig haft einkaþjálfa á einhverjum tímapunkti. Stundum finnst mér langbest að æfa einn en oft er gott að æfa með einhverjum sem maður þarf virkilega að halda í við.

Með hverjum æfirðu?

Akkurat núna æfi ég oftast einn en er að detta inná æfingar með Magnúsi Samúelssyni og Gísla Erni. Ívar Þór hefur einnig verið duglegur að mæta með mér.

Hvernig er týpískur dagur í þínu lífi?

6:30 – Vakna eða vakinn af dóttur minni.
7:00 – Borða morgunmat og tek mig til fyrir vinnu.
8:00 til 15:00 – Er ég við vinnu.
16:00 – Sæki dóttir mína á leikskóla og sinni ýmsum erindum.
17:00 til 22:00 – Einhvers staðar á þessu tímabili tek ég æfingu en það fer eftir því hvenær konan er búinn að vinna.
23:00 – Farinn að sofa.

Hvað æfirðu oft í viku í niðurskurði?

Þegar ég er í niðurskurði æfi ég 6 daga vikunnar en þegar nær dregur móti er ég oft að fara 2 svar á dag nánast alla daga.
Off-season æfi ég 3-4 í viku en þá reyni ég að hvíla eins mikið og mögulegt er milli þungra æfinga.

Hvað lyftirðu oft í viku og hvernig skiptirðu líkamanum niður?

Off-season skipti ég honum niður í 3-4 parta en þegar ég er að fara að keppa skipti ég honum í 5 parta.
ONSEASON:
Mánudagur: Bak
Þriðjudagur Axlir og Þríhöfði
Miðvikudagur: Hamur og kálfar
Fimmtudagur: Framanverð læri
Föstudagur: Brjóst og tvíhöfði
Laugardagur: Brennsla
Sunnudagur: Brennsla

Hvaða líkamspart finnst þér skemmtilegast að æfa og af hverju?

Finnst LANG skemmtilegast að lyfta lappir/rass vegna þess að þetta eru stærstu vöðvarnir og þar er yfirleitt mesti krafturinn.

Hver er uppáhalds æfingin þín?

Hnébeygja á stól og fótapressa.

Hefurðu farið á pósunámskeið?

Já hef farið einu sinni áður og ég mæli svo sannarlega með því jafnvel þótt maður hafi keppt nokkrum sinnum. Alltaf hægt að læra meira og betur.

Hvað tekurðu langan tíma í niðurskurð?

Mjög misjafnt. Er enn að reyna að finna út hvað hentar mér best. Hef reyndar aldrei tekið minna en 7 vikur.

Vigtaðu matinn í niðurskurði?

Já reyni að gera það eftir bestu getu.

Hver er uppáhalds máltíðin þín þegar þú ert að skera niður?

Kjúklingurinn frá Ginger.

En í off – season?

Grillaður hreindýrahamborgari eða grillað lambalæri með öllu tilheyrandi.

Hvaða fæðubótarefni notarðu?

Serious Mass (offseason), Whey prótein, Casain prótein, Glutamine, Kreatín, ALA, CLA og Green Tea. Fæ þetta allt saman hjá Perform.is.

Ferðu reglulega í nudd?

Fór reglulega en þyrfti að vera duglegri því þetta er algjör nauðsyn og í raun frekar skylda.

Hlustarðu á tónlist þegar þú æfir?

Mjög misjafnt og fer í raun eftir því hvað ég er að taka á æfingum. Annars er mest rokk, hipp hopp og ýmis þemalög úr bodybuilding motivation videoum :)

Tekurðu kolvetnislækkun og hleðslu síðustu vikuna fyrir mót?

Já hef alltaf gert það en eins og komið hefur fram er ég enn að finna út hvað er að henta mínum líkama best í þessum efnum.

Hvað finnst þér þú þurfa að bæta fyrir næsta mót?

Þurrk/skurð það er alveg klárt mál. Er vonandi búinn að bæta mig eitthvað í kjötmagninu frá því síðast þannig að nú verður hitt að smella.

Hvað finnst þér um þennan frábæra árangur sem íslenskir keppendur eru að ná á erlendum mótum?

Alveg frábært svo vægt sé til orða tekið. Þetta ætti að vera mikil og góð lyftistöng fyrir þetta annars litla jaðarsport. Virkar a.m.k. mjög hvetjandi á mig.

Hefurðu áhuga á að keppa meira erlendis? Ef svo, hvaða mót finnst þér mest spennandi?

Auðvitað væri mjög gaman að prufa að keppa erlendis ef ekki bara fyrir það að læra eitthvað nýtt. Osló GP og Arnold classic heilla mig hvað mest enn sem komið er.

Hversu mikilvægt er að hafa sponsa?

Tel það vera mjög mikilvægt því þetta sport er langt frá því að vera ódýrt. Gefandi hvernig árferðið er hér getur samt verið mjög erfitt að verða sér út um góð „spons“. Ég er t.d. með meira en eitt spons núna í fyrsta sinn á mínum ferli og það er og hefur hjálpað mér mjög mikið enda er ég þakklátur þeim aðilum sem þar að koma.

Hvaða sponsa ertu með?

Perform.is, Ginger Reykjavík, World Class (Laugar Spa) og Hámark (próteindrykk).

Ertu með einhver ráð fyrir þá stráka sem eru að stíga sín fyrstu spor í þessu sporti?

Þolinmæði þrautir vinnur allar – hvort sem það er í fitnessi eða vaxtarrækt. Gefum líkamanum tíma til að breytast hvort sem það er að stækka eða minnka. Ekki vanmeta nudd, teygjur eða hvíld og verið eins fjölbreytt og þið getið við æfingar.

Eitthvað að lokum?

Finnst www.ifitness.is vera algjör snilld og raun löngu komin þörf fyrir svona síðu. Tek ofan fyrir Konna og Co.