Jóhanna Hildur Tómasdóttir

Jóhanna Hildur

Fæðingardagur: 14 janúar 1987

Flokkur: Fitness kvenna -163 cm

Keppnisbakgrunnur:
2012 Bikarmót IFBB - 163 cm flokkur 1. sæti.
2012 Íslandsmót IFBB - 163 cm flokkur 2. sæti.

 

Hvers vegna ákvaðst þú að keppa í fyrsta sinn?

Ég var búin að æfa lengi og hafði alltaf haft áhuga á fitness mér fannst ég bara verða að prufa þetta og núna verður bara ekkert bakkað. Mér finnst þetta alveg rosalega skemmtilegt og þó svo að margir haldi að þetta sé óhollt fyrir líkamann þá er ég því ekki sammála, þetta snýst mest um heilbrigt mataræði og mikla hreyfingu.

Hvaða bakgrunn ertu með í íþróttum?

Ég æfði dans í mörg ár og var/er í hestamennsku.

Hvað varstu búin að æfa lengi áður en þú kepptir í fyrsta sinn?

Ég keypti mér fyrst kort í World Class fyrir 8 árum og var þá að mæta svona 3 sinnum í viku en oftast bara að fara í hóptíma en svo fékk ég lyftingardelluna fyrir svona 5 árum og hef ég æft frekar stíft alla daga síðan, ég missi mjög sjaldan úr æfingu .. að æfa er eitt það skemmtilegasta sem ég geri.

Finnst þér sem þinn bakgrunnur í íþróttum hafa hjálpað þér í fitness?

Ekki spurning.

Færðu stuðning frá fjölskyldu og vinum þegar þú ert í niðurskurði?

Já mjög mikinn, ég á 5 ára stelpu og ég fæ mikla hjálp með hana seinustu dagana fyrir mót.

Hver eru markmið þín innan sportsins?

Mér langar að halda áfram að keppa, fara jafnvel eitthvað erlendis á mót, það er draumurinn!! Vera fyrirmynd fyrir aðrar stelpur í sportinu, ég mun aldrei hætta að stunda líkamsrækt!!!

Áttu þér einhverja fyrirmynd í sportinu hér heima eða úti?

Já ég á mér alveg nokkrar fyrirmyndir í þessu sporti bæði hér heima og erlendis, ég til dæmis lít mikið upp til vinkvenna minna sem stunda þetta sport við erum duglegar að hvetja hverja aðra áfram, það hjálpar rosalega mikið og gerir þetta skemmtilegra. Larissa Reis er í miklu uppáhaldi og Erin Stern líka

Hvar finnst þér best að æfa og af hverju?

Mér finnst best að æfa í World Class Laugum þar er allt til alls og þar get ég hitt þjálfarann minn Konráð Val Gíslason, hann vinnur þar og er alltaf til staðar ef það er eitthvað sem mig vantar að vita.

Æfirðu ein eða ertu með æfingafélaga?

Ég æfi eiginlega alltaf með æfingarfélaga eða með þjálfaranum mínum það munar rosalega miklu að hafa einhvern til að æfa með, það gerir æfinguna bæði skemmtilegri og einfaldari þar sem æfingarfélaginn hjálpar manni ef það þarf.

Með hverri æfirðu?

Ég æfi oftast Írisi Örnu Geirsdóttur heimsmeistara hjá WBFF sambandinu & Magneu Gunnarsdóttir Bikarmeistara IFBB í unglinga módelfitness hér á landi og svo Konna þjálfara 3 sinnum í viku.

Hvernig er týpískur dagur í þínu lífi? 

Ég vakna og fæ mér prótein fer með dóttir mína í leikskólann fer svo sjálf á brennsluæfingu, þá er klukkan svona 9-10 þegar ég klára. Eftir það fer ég í skólann eða vinnu, sæki svo barnið mitt og fer aftur á æfingu, oftast svona um 5 leytið .. svo fer ég heim að elda og sinni því sem ég þarf að sinna og fer svo að sofa þessi rútína mín hefur verið eins í nokkur ár og henntar mér rosalega vel  

Hvað æfirðu oft í viku í niðurskurði?

Þegar ég er að undirbúa mig fyrir mót þá er regla nr. 1: ég æfi 2 sinnum á dag alla virka daga en bara einu sinni laugardag og sunnudag en offseason þá er ég ekki alveg jafn ströng við mig og sleppi stundum cardio á morgnana það fer eiginlega bara eftir því hvernig ég er stemd en annars finnst mér æði að byrja daginn á cardio það kemur öllu í gang og ég fer hressari inn í daginn.

Hvað lyftirðu oft í viku?

Ég lyfti 6 sinnum í viku og ég æfi eftir prógrammi frá Konna sem er sérsniðið fyrir mig og mjög breytilegt.

Hvaða líkamspart finnst þér skemmtilegast að æfa og af hverju?

Axlir og bak eru svona mitt uppáhalds núna en fætur (hamur og bossi) koma þar á eftir ..

Hver er uppáhalds æfingin þín?

Hliðarlyftur og aðrar axlaræfingar hafa alltaf verið í uppáhaldi svo finnst mér mjög gaman að taka hnébeygjur, það eru fáar æfingar sem gefa eins mikið og þær. 

Hefurðu farið á pósunámskeið? ef svo myndirðu mæla með því?

Já ég mæli með því fyrir alla sem hafa áhuga að að keppa í þessu sporti, það er svo mikilvægt að mæta með sjálfstraustið á svið og það er ótrúlegt hvað þessi námskeið hjálpa manni að komast yfir feimni og annað þó svo að maður sé í svakalegu formi þá er ekki sjálfgefið að manni finnist lítið mál að standa uppá sviði og pósa, brosa og ganga fyrir framan mörg hundruð manns .. þetta er eitthvað sem er farið yfir í hvert skipti á þessum námskeiðum og manni eru gefin ráð til að ná fram sínum bestu pósum og fl … ég hef farið 2 sinnum á pósunámskeiðið til Magga Sam Sif Sveins og Konna þetta er eitt flottasta pósunámskeið sem er boðið uppá enda eru þetta rosalega flottir kennarar og öll eru þau með mikla sviðsreynslu !!! ég mundi ekki fara neitt annað og þó ég hafi keppt 2 sinnum og gengið rosalega vel í bæði skiptin þá mun ég alltaf fara á svona námskeið fyrir mót í framtíðinni svo er þetta líka bara rosalega skemmtilegt og kemur anda í mann og peppar mann upp fyrir stóra daginn!!

Hvað tekurðu langan tíma í niðurskurð?

Ég æfi allt árið og borða hollt nema á nammidögum en ég tek 12 vikna niðurskurð, þannig 12 vikum fyrir mót byrjar maður að vera 100 % í öllu !!!

Vigtarðu matinn í niðurskurði?

Hver er uppáhalds máltíðin þín þegar þú ert að skera niður?

Hafragrautur með súkkulaði próteini frá QNT umm elska það .. það er svona eins og nammi fyrir mér 2 sinnum á dag svo auðvitað svindlmáltíðin á laugardögum

En í offseason?

Nautalund, lambalæri, humar og svo elska ég sushi .. þannig ég mundi segja að helgarnar séu uppáhalds því þá borða ég allt sem mig dettur í hug að borða.

Hvaða fæðubótarefni notarðu?

Ég nota bara fæðubótarefni frá QNT
Zero Carb Metapure
Isolate whey prótein drekk það alla daga svona 3 sinnum á dag.
Casein prótein fyrir svefn alla daga
Vítamín frá QNT alla daga  

Hefurðu farið til íþróttasálfræðings?

Nei ég hef aldrei farið en ég hef verið að skoða það að fara til Önnu Sigurðar sem hefur sérhæft sig svolítið í þessu sporti þó svo að mér líði vel og það sé ekkert að angra mig þá held ég að maður hafi bara gott af því að hitta einhvern sem er algjörlega hlutlaus til að ræða hvernig líkaminn er að skila þessu öllu til heilans því þetta sport fer misvel í fólk og maður verður að fylgjast með öllu og öllum tilfiningunum sem poppa upp eftir mót.

Ferðu reglulega í nudd?

Já í kringum mót hef ég verið að fara í nudd og teygjutíma en geri ekki jafn mikið af því milli móta.

Hlustarðu á tónlist þegar þú æfir?

Já alltaf þegar ég er að brenna og stundum á æfingu líka það fer auðvitað bara eftir því hvort ég er ein eða með æfingarfélaga eða þjálfara.

Tekurðu kolvetnislækkun og hleðslu síðustu vikuna fyrir mót?

Ég tek ekkert kolvetnissvelt og fékk til dæmis að sleppa allri vatnslosun fyrir seinasta mót en jú ég tek smá hleðslu og byrja 2 dögum fyrir mót !!

Hvað finnst þér þú þurfa að bæta fyrir næsta mót?

Ham, bossa og þríhöfða

Hvað finnst þér um þennan frábæra árangur sem íslenskir keppendur eru að ná á erlendum mótum?

Ég er rosalega stolt af Íslendingunum í þessu sporti, við höfum náð rosalega flottum árangri erlendis bæði módelfitness stelpur og fitness sem og vaxtarræktarfólk.

Hefurðu áhuga á að keppa erlendis?

Já ég hef áhuga á að fara á mót erlendis Arnold kallar hæst en svo eru líka önnur mót eins og Loaded Cup í Danmörku sem ég hef áhuga á að skoða  

Hversu mikilvægt er að hafa sponsa?

Að mínu mati er það rosalega mikilvægt að hafa góða sponsa á bakvið sig og þeir koma með tímanum og verða betri með hverju mótinu.

Hvaða sponsa ertu með?

Core.is (QNT) sponsar mig með fæðubótarefni,
Ginger með mat.
iFitness.is

Ertu með einhver ráð fyrir þær stelpur sem eru að stíga sín fyrstu spor í þessu sporti?

Já taka þessu alvarlega en ekki of alvarlega samt, það er mikilvægt að eiga sér líf fyrir utan ræktina en mér finnst mjög mikilvægt að vera með góðan þjálfara sem leiðbeinir vel fyrir og eftir mót og vera í góðum félagsskap. Jákvæðni og þolimæði er lykillinn í þessu því maður vaknaði jú ekki í þessu formi heldur er þetta vinna og tekur tíma.

Eitthvað að lokum?

Ég er ný búin að vinna Bikarmeistaratitilinn í -163 cm fitnessflokknum og er ennþá í smá sigurvímu, ég vil þakka öllum þeim sem hafa staðið með mér og sérstaklega þjálfaranum mínum Konráð Val Gíslason fyrir ómetanlegan stuðning og leiðsögn bæði fyrir og eftir mót því það er alveg jafn mikilvægt að vera vakandi eftir mót og kötta ekki á æfingarnar þrátt fyrir að það sé kannski ekki mót í vændum. Svo vil ég benda fólki á að kynna sér sportið þetta er virkilega skemmtilegur félagsskapur þótt þetta sé vissulega ekki fyrir alla.