Hlynur Guðlaugsson

Hlynur

Fæðingardagur: 5. mars 1979

Flokkur: Fitness karla/Classic bodybuilding

Keppnisbakgrunnur:
Loaded Cup í Danmörku 2013
Bikarmót IFBB 2011
Bikarmót IFBB 2012
Íslandsmót IFBB 2013

Við hvað vinnurðu?

Ég er markaðsstjóri/eigandi hjá Prentun.is sem er fyrirtæki í auglýsinga, margmiðlun- og prentsmiðjuiðnaði.

Hvernig gengur að sameina vinnu og æfingar?

Gengur yfirleitt mjög vel. Ef skipulagið er gott og planið fyrir vikuna liggur nokkurnveginn fyrir gengur þetta allt upp. Ég hinsvegar er í vinnu þar sem stundum er mikið stress og lítill tími til að vinna hlutina. Að reka eigið fyrirtæki er krefjandi þannig að allt þarf að ganga vel upp í skipulaginu. Oftast gengur þetta vel upp en stundum þarf maður að færa til æfingadaga og hliðra til. Ég held að þetta eigi við flesta sem stunda fulla vinnu í þessu sporti.

Hvers vegna ákvaðst þú að keppa í fyrsta sinn?

Fitness og vaxtarrækt hefur blundað lengi í þessu skrokki. Allt frá barnæsku fannst mér gaman að skoða myndir af fólki sem keppti í vaxtarækt og fannst alltaf ákveðinn ljómi yfir sportinu sem slíku. Svo hef ég verið í íþróttum nánast frá því ég lærði að ganga þannig að mér fannst spennandi að sjá hversu langt væri hægt að fara með skrokkinn að þessu leitinu til.

Hvaða bakgrunn ertu með í íþróttum?

Grunnur minn í íþróttum er nokkuð fjölþættur. Eins og ég sagði áður að þá hef ég verið íþróttum frá barnæsku og í raun ekki stoppað síðan. Ég stundaði fótbolta og handbolta á yngri árum þangað til fótboltinn tók alveg við. Ég spilaði í meistaraflokki frá 15. aldursári og upp eftir aldri og spilaði á annað hundrað leiki í meistaraflokki.

Hvað varstu búin að æfa lengi áður en þú kepptir í fyrsta sinn?

Ég var búinn að lyfta lóðum í nokkur ár án þess beint að vera með hugann við keppni. Þegar ég kynntist konunni minn kom alvara í málið. Við höfðum bæði leitt hugann að því að keppa og má segja að við kveiktum í hvort öðru með þetta að gera og sjáum ekki fyrir endan á því ennþá.

Finnst þér sem þinn bakgrunnur í íþróttum hafa hjálpað þér í fitness? 

Það er mín skoðun að slíkur bakgrunnur hjálpi manni gríðalega mikið. Þó að fitness og vaxtarrækt sé einstaklingsframtak á sviðinu þá liggur miklu meira að baki og er sterk liðsheild lykilatriði til árangurs í þessu sporti. Svo er bara þannig í þessu sporti að annað hvort hefuru það sem þarf eða ekki. en sígandi lukka er best. Hjá körlum í þessu sporti eru gerðar svakalegar kröfur um form, skurð osfr.  Það hoppar engin fullskapaður í þetta.

Færðu stuðning frá fjölskyldu og vinum þegar þú ert í niðurskurði?

Já, mikin og góðan. Við getum skilgreint liðsheild út frá maka okkar, börnum, fjölskyldu og vinum. Slík liðsheild er lykill að árangri þar sem þetta snertir nánast á öllum flötum okkar lífs. Í mínu tilfelli þarf ég góðan stuðning og aðstoð frá mínum nánustu til að dagurinn gangi upp, sérstaklega þegar dregur nær móti. Það breytir miklu að konan mín er á fullu í þessu líka þannig að við skilningurinn okkar á milli er algjör.

Hver eru markmið þín innan sportsins?

Markmiðið hjá mér er að bæta sjálfan mig frá móti til móts. Ég ætla hinsvegar ekkert að tala í kringum hlutina og get alveg sagt að mitt markmið er að vinna mót á einhverjum tímapunkti. Þetta tekur tíma og mikla vinnu þar sem fitness flokkur karla er gríðalega sterkur flokkur á Íslandi, og gæðin eru alltaf að batna. Það eru margir rosalega góðir skrokkar og má segja að standardinn á Íslandi sé með ólíkindum ef við miðum við höfðatölu. Ef menn ætla að vinna titla að þá þarf gríðaleg gæði til þess. En til þess að svo geti orðið þarf að setja markið hátt og setja huga, hugsun og líkama í þá átt.

Áttu þér einhverja fyrirmynd í sportinu hér heima eða úti?

Þær eru eru alveg nokkrar. Ég hef alltaf tekið þann pólinn í hæðina að hafa vægi milli skrokka og persónuleika jafnt eða sett meira vægi á persónuna. Ég hef kynnst mörgum frábæru fólki í þessu sporti og vil ég kannski ekki nefna neinn einn sem slíkan. Ég hef eignast góða vini í gegnum sportið, fólk sem ég ber mikla virðingu fyrir. Svo vil ég nefna konuna mína sem margir geta tekið sér til fyrirmyndar og er gangandi dæmi um hvað hægt er að gera með miklum viljastyrk og sterkum fókus á markmið.

Hvar finnst þér best að æfa og af hverju?

Ég verð að segja World class í Hafnarfirði og Laugum. Ég og konan förum í Hafnarfjörðinn vegna nálægðar við heimili okkar en finnst gott að koma í Laugar mjög reglulega.

Æfirðu einn eða ertu með æfingafélaga?

Nú er það svo að ég og konan mín, Kristín Sveiney Baldursdóttir eyðum oftast hverri mínútu saman á æfingum. Við erum einkaþjálfarar hvors annars og hefur það gefist ákaflega vel. Við erum að vinna að sömu markmiðum og vegum hvort annað mjög vel upp þegar kemur að þessu. Góður æfingafélagi getur skipt öllu þegar það á við.

Með hverjum æfirðu?

Ég æfi með konunni minni sem er nýkrýndur íslandsmeistari 2013 og bikarmeistari í fitness kvenna 2012, þannig að æfingafélaginn gæti ekki verið betri. Hún er einstaklega hvetjandi og rekur kallinn sinn áfram þegar þarf að taka til hendinni. Gæti ekki beðið um betri æfingafélaga og persónu mér við hlið í þessu sporti og lífinu.

Hvernig er týpískur dagur í þínu lífi?

Það er vaknað ekki seinna en 07.00 á virkum dögum og börnin græjuð fyrir skólann. Svo tekur vinnan við næstu 8-9 tímana og æfing strax eftir vinnu. Svo er farið heim, eldað og dagurinn kláraður í faðmi fjölskyldunnar.

Hvað æfirðu oft í viku í niðurskurði?

Í niðurskurði fer fjöldinn sennilega upp í 12-14 skipti þegar mest lætur. Offseason er þetta sennilega 4-5 sinnum í viku.

Hvað lyftirðu oft í viku og hvernig skiptirðu líkamanum niður?

Ég lyfti 4-5 sinnum í viku og tek a.m.k. tvær æfingar á neðripart líkamans. Ég vil ekki njörva mig mikið niður með hvaða vöðvahópa ég æfi saman og vil frekar vera sveiganlegur með það og hafa það opið. Mikilvægast er að klára hvern hóp a.m.k. einu sinni í viku og gera það vel og vera með fjölbreytni frekar en vanafestu.

Hvaða líkamspart finnst þér skemmtilegast að æfa og af hverju?

Ég á mjög erfitt að taka það sérstaklega út. Það fer soldið eftir hvar maður er staddur í ferlinu fyrir t.d. mót. Mér finnst í raun skemmtilegast að æfa alla líkamsparta, svo einfalt er það.

Hver er uppáhalds æfingin þín?

Ég er farinn að elska hnébeygjuna þokkalega, sérstaklega þegar maður á ekki mikið plás eftir til að setja lóð á stöngina.

Hefurðu farið á pósunámskeið?

Já ég hef farið á pósunámskeið og myndi mæla með því við hvern sem er. Þó svo að viðkomandi haldi að hann hafi fullkomið vald á pósum að þá má alltaf laga betur og bæta. Fyrir mér var þetta að mæta einu sinni í viku og pósa með hrikalegum skrokkum og fá smá samanburð í leiðinni. Ég held að strákar séu almennt soldið latir að æfa pósur heima þannig að svona námskeið er algjörlega málið til að gera betur.

Hvað tekurðu langan tíma í niðurskurð?

Ég hef tekið 12-14 vikur í skurð og byrja þá rólega. Svo þegar eru 8 vikur í mót að þá gefur maður verulega í, alveg að móti. Betra er að byrja fyrr heldur en að taka allt út og umturna mataræðinu á einni viku. Eins og gefur að skilja að þá fer það alveg eftir því hvar skrokkurinn er staddur í upphafi skurðs hversu langan tíma maður tekur.

Vigtaðu matinn í niðurskurði? 

Já, þegar svona 4-5 vikur eru í mót að þá þarf aðeins vísindalegri nálgun á þetta í formi hlutfalla og vigtar. Annars hef ég ekki verið mjög strangur við mig upp á gramm hvað þessa hluti varðar. Ég veit hvað ég má og þarf þannig að ég get soldið spilað þetta eftir eyranu.

Hver er uppáhalds máltíðin þín þegar þú ert að skera niður?

Ætli ég segi ekki bara kjúklingur og sætar. Eftir 700 slíkar máltíðir í niðurskurði að þá kemst maður ekki hjá því að kalla þetta uppáhalds. Segjum það bara.

En í offseason?

Þá erum erum við að tala um gamla góða heimilismat. Konan mín er góður kokkur þegar kemur að íslensku kjarnafæði finnt mér stundum ekkert betra en að fá soðinn fiski og kartöflur. Svo lumar hún á ansi góðum kjúklingaréttum sem fá þennan gaur til að sleikja út um.

Hvaða fæðubótarefni notarðu?

Prótein, Casein prótein, creatin, fjölvítamín, preworkout drykki ofl.

Hefurðu farið til íþróttasálfræðings?

Þar sem ég stundaði hópíþrótt í mörg ár, að þá voru stundum haldnir liðsfundir með slíkum sérfræðingi þannig að svar mitt er já. Ég tel að slíkt geti breytt miklu fyrir einstaklinga t.d. í þessu sporti. Í sporti sem snýst um útlit, vöðvastærð osfr. að þá er auðvelt að fara af teinunum hvað sálartetrið varðar. Þess vegna er gott að fá leiðsögn um hvernig fólk á að tala við sjálft sig. Við dettum oft í þá gryfju, t.d. í niðurskurði að brjóta okkur niður án tilefnis. Þess vegna er gott að fá leiðsögn í samskiptum við sjálfan sig.

Ferðu reglulega í nudd?

Algjörlega nausynlegt að fara reglulega í nudd. Ég tel að þetta hjálpi upp á vöðvastærð, skil í vöðvum og fyrir niðurskurð. Nuddið allavega skilaði mér miklu fyrir síðasta mót.

Hlustarðu á tónlist þegar þú æfir?

Nei ég hlusta á konuna bara.

Tekurðu kolvetnislækkun og hleðslu síðustu vikuna fyrir mót?

Já ég tæmi kolvetnin síðustu vikur fyrir mót og hleð svo í aðdraganda móts.

Tekurðu einhverja vatnslosun vikuna fyrir mót?

Ég hef gert það hingað til.

Hvað finnst þér þú þurfa að bæta fyrir næsta mót? 

Það er margt sem ég þarf að laga. Ég er mjög gagnrýnin á mig sjálfan en reyni þá að hafa þetta á faglegum grundvelli. Ég þarf meiri overall bætingar ásamt því sem þarf að taka einstaka vöðvahópa í gegn. Ég er með skrokkinn á teikniborðinu og nú vinnan byrjar strax og er stöðug svo lengi sem ég er í þessu sporti.

Hvað finnst þér um þennan frábæra árangur sem íslenskir keppendur eru að ná á erlendum mótum?

Það eru góð gen í íslendingum þegar kemur að keppni í fitness, módelfitness og vaxtarækt. Við eigum ótrúlega flott fólk og er árangurinn á erlendri grundu engin tilviljun eða heppni. Við eigum mjög líklega eftir að eignast heims- og eða Evrópumeistara á þessum vettvangi mjög fljótlega aftur.

Hefurðu áhuga á að keppa meira erlendis?

Það er mikill hugur í þessum skrokk. Fyrir mig að þá sé ég Skandinavíu í smá hyllingum, Oslo Grand prix og Loaded Cup sem dæmi. Það eru mót sem íslendingar hafa verið að gera vel á og væri gaman að mæla sig við þá bestu þar. Væri gaman að splæsa í smá hópferð/landsliðsferð á þessi mót.

Hversu mikilvægt er að hafa sponsa?

Gríðalega mikilvægt. Þetta sport krefst mikilla fjárútláta í formi matarinnkaupa ofl. Bara það að hafa matarstyrk getur breytt miklu fyrir hvern keppanda. Í mínu tilfelli að þá er ég með fjölskyldu og tíminn oft af skornum skammti. Þá er einmitt gott að geta nálgast máltíðir dagsins og þurfa ekki að pæla í matargerðinni sem slíkri.

Hvaða sponsa ertu með?

Hummel á Íslandi, Perform, Heilsa, Prentun.is, Hámark, Innnes Trimform Berglindar og World class. Frábær liðsheild sem studdi mjög vel við bakið á mér.

Ertu með einhver ráð fyrir þá stráka sem eru að stíga sín fyrstu spor í þessu sporti?

Í þessu sporti er þolinmæði og tími þínir bestu vinir. Það eru fáir sem hoppa inn í svona fullkskapaðir þó svo það sé til, en sígandi lukka er best. Best er að reyna að fræða sjálfan sig sjálfur eins mikið og hægt er. Svo er ekkert mál að nálgast massaða gaurinn eða flottu stelpuna á æfingu og spyrja. Svo eigum við fullt af færu fagfólki í þessum brannsa og ef vitneskjan er ekki mikil að þá er um að gera að fá hana hjá góðum einkaþjálfara.

Eitthvað að lokum?

Bestu þakkir til allra sem studdu við bakið á mér og okkur fyrir síðustu mót. Í þessu sporti sem og öðru er gríðalega mikilvægt að hafa gott bakland í fjölskyldu og vinum. Eins og áður sagði, þó svo þetta sé einstaklingsframtak á sviðinu að þá liggur gríðalega margt að baki og margir sem koma að þessari vinnu. Einnig vil ég hrósa Ifitness.is fyrir skemmtilega vefsíðu og efnistök. Konráð Valur Gíslason fær svo hrós frá mér fyrir að vera Hugh Hefner kvennafitnessins á Íslandi. Mikill fagmaður þar á ferð.